Sker niður þróunaraðstoð og ver meiru í varnarmál

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu um varnarmál í breska …
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu um varnarmál í breska þinginu í dag, þar sem hann tilkynnir um aukin útgjöld ríkisins til málaflokksins. Skjáskot/AFP

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að auka útgjöld ríkisins til varnarmála. Þetta tilkynnti hann á breska þinginu nú fyrir stundu.

Bretar vörðu 2,3% af þjóðarframleiðslu til varnarmála á fjárhagsárinu 2023-2024, sem samsvarar rúmum 65 milljörðum punda eða tæpum 12 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Starmer lofar að auka framlög til varnarmála um 0,2 prósentustig fyrir árið 2027 og með lokamarkmið um önnur 0,5 stig á næsta þingi.

Þar með yrðu útgjöld til varnarmála 3,0% af þjóðarframleiðslu.

Í aðdraganda fundar með Trump

Áætlunin er sögð hluti af víðtækri viðleitni til að endurnýja herafla Bretlands í ljósi breyttra ógna á heimsvísu, sérstaklega vegna stríðsins í Úkraínu.

Útgjöld breska ríkisins til varnarmála yrðu þá rúmir 85 milljarðar punda sem jafngilda rúmum 15 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Tilkynning Starmers kemur í aðdraganda mikilvægs fundar hans með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, síðar í vikunni. Hann hefur kallað eftir því að aðildarríki NATO verji 5% af þjóðarframleiðslu til varnarmála.

Til að fjármagna aukin útgjöld til varnarmála munu Bretar draga saman þróunaraðstoð við erlend ríki um 0,2 prósentustig af þjóðarframleiðslu sem jafngildir 40% niðurskurði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert