Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sótti í gær leiðtogafund í Kænugarði í Úkraínu en þá voru nákvæmlega þrjú ár liðin frá því innrás Rússlands í landið hófst.
Kristrún tók meðal annars þátt í minningarathöfn um úkraínska hermenn sem hafa fallið í varnarbaráttu þjóðarinnar á þessum þremur árum og á myndinni hér að ofan er hún með Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar, Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta.
Leiðtogafundinn sóttu leiðtogar Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna, Kanada, Spánar og stofnana Evrópusambandsins auk forseta Úkraínu. Fleiri þjóðarleiðtogar tóku þátt með fjarfundarbúnaði.
„Það skiptir auðvitað lykilmáli að bandamenn Úkraínu, þjóðir sem hugsa með svipuðum hætti, sýni stuðning sinn í verki. Við erum meðal annars komin hérna í dag, ekki bara til að segja eitthvað, heldur líka til að sýna bókstaflega okkar stuðning í verki með því að standa við skuldbindingarnar okkar.
Loforð var gefið á NATO-fundi í fyrra um að við myndum taka þátt í varnartengdum útgjöldum í tengslum við Úkraínu og við myndum uppfylla okkar hlutfall af landsframleiðslu,“ sagði Kristrún við Morgunblaðið í gær en greint var frá því í gær að Ísland myndi auka fjárstuðning sinn við Úkraínu. Með því nemur stuðningur Íslands 3,6 milljörðum króna á þessu ári.
Fjallað var um stríðið í Úkraínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Á endanum var ályktun um sanngjarnan og viðvarandi frið í Úkraínu samþykkt en í henni felst að Úkraína haldi alþjóðlega viðurkenndum landamærum sínum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag