Dönsk yfirvöld hyggjast banna snjallsíma í skólum. Frá þessu greindi mennta- og barnamálaráðherra Danmerkur, Mattias Tesfye, í gær.
The Guardian greinir frá en upprunalega tjáði Tesfye sig um málið við danska miðilinn Politiken.
Bann á snjallsímum í skólum er ein af tillögum starfshóps sem var komið á af forsætisráðherra landsins, Mette Frederiksen, árið 2023, og átti að rannsaka vaxandi óánægju barna og ungs fólks í Danmörku.
Skýrsla starfshópsins birtist loks í gær og innihélt 35 tillögur um hvernig hægt væri að bæta andlega heilsu og velferð barna landsins.
Einnig má finna tillögu þar sem starfshópurinn segir að börn undir þrettán ára ættu ekki að eiga eigin snjallsíma eða spjaldtölvu.
Í samtali við Politiken segir Tesfye að undirbúningur sé nú hafinn á löggjöfinni. Mun það hafa í för með sér að næstum öllum börnum frá sjö ára aldri og upp í sextán til sautján ára aldurs verður meinað með lögum að koma með síma sína í skólann.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að 94% barna hafi átt aðgang að samfélagsmiðli áður en þeir urðu 13 ára sem er lágmarksaldur til þess að skrá sig.
Kemur þar einnig fram að börn frá 9-14 ára verji að meðaltali þremur klukkutímum á dag á miðlunum YouTube og TikTok.
Formaður starfshópsins, Rasmus Meyer, líkti banninu á snjallsímanotkun við bann á reykingum innan skólasvæðis og sagði að um leið og börnum sé gefinn sími muni hann taka yfir líf þeirra.
Umræða um símabann í skólum er ekki ný af nálinni og hefur verið til umfjöllunar hér heima.
Var t.a.m. greint frá því í október á síðasta ári að nemendur sem verji meiri tíma í snjallsímum hafa minni áhuga á lestri en þeir sem nota símana lítið eða ekkert.
Þá sagði Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Flokks fólksins og núverandi þingmaður, nauðsynlegt að að gera snjallsíma útlæga úr skólum borgarinnar.