Rúmlega 50 hafa látist af völdum dularfulls sjúkdóms sem greinst hefur í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í Afríku.
Skrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Afríku segir að sjúkdómurinn hafi fyrst greinst í bænum Boloko, sem er í norðvesturhluta landsins.
Fram kemur í umfjöllun Sky News að talið sé að börn hafi lagt sér leðurblöku til munns og látist eftir að hafa veikst, en þau fengu hita og blæðingar.
Í langflestum tilvikum hafa liðið um það bil tveir sólarhringar frá því einstaklingur greinist fyrst með einkenni og þegar hann lætur lífið.
„Við höfum miklar áhyggjur af því,“ segir Serge Ngalebato, framkvæmdastjóri lækninga á Bikoro-sjúkrahúsinu, í samtali við The Associated Press.
Sjúkdómsins varð fyrst var 21. janúar og alls hafa 419 tilfelli verið skráð og 53 dauðsföll.
Sjúkdómurinn greindist svo í bænum Bomate 9. febrúar.
Sýni sem hafa verið tekin úr þrettán einstaklingum hafa verið send á rannsóknarstofnun í Kinshasa, sem er höfuðborg Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, að sögn talsmanna WHO.
Niðurstöður rannsóknanna sýna ekki fram á ebólu eða aðra sjúkdóma sem valda blæðandi veirusóttarhita. Sumir reyndust smitaðir af malaríu.
Í fyrra dreifðist annar dularfullur sjúkdómur þar sem einkennin minntu á flens. Þá létust tugir í öðrum hluta landsins. Talið er að um malaríu hafi verið að ræða.