Framtíðarsýn Trumps: Gullstyttur, lúxus og skeggjaðar dansmeyjar á Gasa

Hér má sjá nokkur brot úr myndskeiðinu, m.a. gullstyttu af …
Hér má sjá nokkur brot úr myndskeiðinu, m.a. gullstyttu af Trump og svo bregður Elon Musk nokkrum sinnum fyrir í því. Samsett mynd

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur birt myndskeið á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, sem sýnir framtíðarsýn hans fyrir Gasa. Athygli vekur að um gervigreindarsmíði er að ræða þar sem má sjá gullstyttur, skeggjaðar dansmeyjar og Trump í sólbaði með forsætisráðherra Ísraels.

Trump birti myndskeiðið án þess að skrifa ummæli með því. Í því sést hvernig Trump hyggst breyta Gasa úr stríðshrjáðu svæði yfir í ferðamannaparadís með fallegum ströndum, háhýsum, lúxusnekkjum og fólki að skemmta sér, þar á meðal auðkýfingurinn Elon Musk.

Í upphafi myndskeiðsins má sjá mikla eyðileggingu á Gasa og í framhaldinu birtist textinn: „Gasa 2025... Hvað svo?“

Í myndskeiðinu má sjá framtíðarsýn Trumps fyrir svæðið. Þar er m.a. Trump Gasa-háhýsi, risavaxin stytta af Trump úr gulli og gjafaverslanir sem selja smærri gulllíkneski. Þá sést barn ganga um götur Gasa með gyllta blöðru, en blaðran er í laginu eins og höfuðið á Trump.

Það vekur vissulega athygli að sjá léttklæddar skeggjaðar magadansmeyjar á bar og að sjá Trump á lendarskýlunni einnar klæða ásamt Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, að liggja í sólbaði við hótel.

Í nokkur skipti sést glitta í Musk þar sem hann sést sitja við ströndina að borða brauð með hummus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert