Skelfingin í Langbarðalandi á Norður-Ítalíu byrjaði í rólegheitum, enga sérstaka athygli vakti þegar eldri kona kom á læknavakt Codogno með slæman hósta. Hún hafði áhyggjur af fréttaflutningi af einhvers konar farsótt í Kína, en starfsfólk læknavaktarinnar brosti hughreystandi áður en það sendi hana heim. Hún væri bara með einhverja umgangspest.
Skyndilega flykktust bæjarbúar í apótekið með einhvers konar flensulík einkenni, í staðarblaðinu birtist lítil frétt um smitandi lungnasýkingu sem hefði stungið sér niður og lítið væri vitað um. Sírenur sjúkrabifreiða tóku skyndilega að glymja á öllum tímum sólarhringsins og tíðar komur syrgjandi fjölskyldna á útfararstofu bæjarins vöktu athygli.
Líf íbúa Codogno umtrurnaðist á nokkrum dögum. Lögregla og hermenn voru á öllum hornum, foreldrar sóttu börn sín í skóla og leikskóla. Næsta stórfrétt fjallað um útgöngubann.
Á laugardaginn var, 21. febrúar, voru fimm ár liðin frá fyrsta dauðsfalli af völdum kórónuveiru í Evrópu í heimsfaraldrinum sem þá var nýhafinn, en það bar að höndum í bænum Codogno, ekki langt frá borginni Mílanó.
Fylgdust Evrópubúar með því í fréttum hvernig veiran skæða læsti klóm sínum í íbúa Codogno og fleiri bæja þar í kring sem urðu fyrsta svæði heimsins til að setja á útgöngubann vegna veirunnar.
Fyrsta tilfellið af covid-19 greindist á Ítalíu í febrúar 2020 þegar litið er til íbúa landsins. Skömmu fyrir mánaðamótin á undan höfðu kínversk hjón, ferðamenn í Róm, veikst þar. Það var 29. janúar. Síðari tíma rannsóknir, undir haust 2020, leiddu í ljós að veiran var komin til Ítalíu þegar í desember 2019. Sýni úr skólpi í borgunum Mílanó og Tórínó leiddu þetta í ljós.
Á Ítalíu létust 35.000 manns af völdum kórónuveirunnar.
Jennifer Wegerup, fréttamaður sænska ríkisútvarpsins SVT, fór til Codogno fyrir fimm árum og er nú snúin þangað aftur, fimm árum eftir fyrsta dauðsfallið.
„Því miður breytti faraldurinn okkur öllum, hann breytti okkur mikið,“ segir Eleonora, íbúi í bænum og Francesco Passerini bæjarstjóri leggur einnig orð í belg og rifjar upp þegar útgöngubannið var sett á. „Það var augnablik ískulda og þagnar,“ segir bæjarstjórinn sem enn kveðst fá gæsahúð þegar hann hugsar til baka til þessa tíma.
„Covid var þá enn eitthvað sem við höfðum bara séð í sjónvarpinu langt í burtu, mjög langt í burtu. Þegar ég hugsa til þess að veiran var þá þegar komin til bæjarins veldur mér óhug,“ segir bæjarstjóri.
Handan tengilsins hér að neðan má sjá myndskeið af því þegar Wegerup heimsækir kirkjugarð í Codogno og fær að heyra frásögn af því hvernig fjórar raðir af gröfum hafi verið teknar á örfáum dögum.