Yfirvöld í Texas hafa staðfest að barn hafi látist af völdum mislinga í ríkinu. Þetta er fyrsta andlátið af völdum sjúkdómsins sem náð hefur fótfestu þar um slóðir og í nágrannaríkinu Nýju-Mexíkó.
Heilbrigðisyfirvöld í borginni Lubbock greindu frá því að barnið hefði verið óbólusett.
Minnst 124 tilfelli mislinga hafa greinst í Texas síðan í lok síðasta mánaðar, flest meðal barna og táninga sem annað hvort er staðfest að séu óbólusett eða ekki er vitað hvort þau hafi verið það. Alls hafa 18 verið lagðir inn á spítala vegna mislinga.
Mislingar eru veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Sjúkdómurinn er oft mest smitandi áður en útbrotin koma fram. Alvarlegir fylgikvillar mislinga geta verið lungnabólga og heilabólga sem getur valdið varanlegum skaða.