Rúmir sjö milljarðar í reiðufé

Peningasmyglararnir fluttu ógrynni fjár út úr Noregi og pökkuðu fénu …
Peningasmyglararnir fluttu ógrynni fjár út úr Noregi og pökkuðu fénu í sorppoka fyrir matarafganga. Óku þeir svo með farminn í fjölda vörubifreiða úr landi. Ljósmynd/Norska lögreglan

Fyrir ári hlaut sýrlenskur ríkisborgari rúmlega fimm ára dóm í Noregi í máli sem hófst með því að lögregla stöðvaði steypubifreið sem hann ók yfir landamærin til Svíþjóðar í febrúar 2023.

Mál sýrlenska mannsins var aðeins brot mun stærri rannsóknar lögreglu sem uppgötvaði tæplega 40 milljónir norskra króna í steyputromlu bifreiðarinnar, jafnvirði 500 milljóna íslenskra króna. Eftir að lögregla hafði nýtt sér upplýsingar sem hún fann í síma manns, sem hlut átti að máli, var fjöldi annarra flutningabifreiða stöðvaður.

Voru bifreiðarnar allar á leið út úr Noregi, flestar á tyrkneskum skráningarnúmerum og farmurinn í öllum tilfellum reiðufé. Er öll kurl voru komin til grafar hafði norska lögreglan lagt hald á 572 milljónir norskra króna, jafnvirði 7,1 milljarðs íslenskra króna.

Flutningur fjárins úr landi var liður í gríðarmiklum þvotti peninga úr flestum greinum ólöglegra viðskipta í Noregi, öllu frá fíkniefnaviðskiptum upp í vinnumansal og hefur málið undið töluvert upp á sig síðan Sýrlendingurinn var handtekinn.

Fyrrverandi skyndibitasendill

Hann á von á frekari ákærum þar sem hann situr í Ringerike-fangelsinu, grunaður um að vera einn aðalmanna í smygli á framangreindum 572 milljónum norskra króna – upphæð sem í norskum 500 króna seðlum rúmaðist í 40 dæmigerðum handfarangurstöskum svo sett sé í samhengi.

Steypubifreiðin sem lögregla stöðvaði í febrúar 2023. Í henni reyndust …
Steypubifreiðin sem lögregla stöðvaði í febrúar 2023. Í henni reyndust 40 milljónir norskra króna í seðlum sem voru á leið úr landi. Sú upphæð er aðeins brot af öllu málinu. Ljósmynd/Norska lögreglan


 

Omar Tashakori er verjandi mannsins og vill ekkert tjá sig um málið. Sjálfur ræddi maðurinn við fréttamenn norska ríkisútvarpsins NRK er þeir heimsóttu hann í fangelsið. Kvaðst hann í samtali við þá vera fyrrverandi skyndibitasendill, einn þeirra sem aka um bæi og borgir í Noregi á reiðhjólum eða léttum bifhjólum og færa fólki mat sem það hefur pantað heim.

Hann lenti í slysi og gat því ekki unnið fyrir sér lengur svo hann tók að flytja peninga. Kveðst hann hafa talið starfsemina löglega, hann hafi aðeins verið að koma fólki til aðstoðar með starfsemi sem á arabísku kallast „hawala“ eða flutningur, en með því er átt við að flytja verðmæti – langoftast peninga – frá einum stað til annars.

Með því að koma peningunum út úr Noregi er nær ómögulegt að rekja feril þeirra og komast að því í hvaða tilgangi þeir hafa verið notaðir. Segir norska efnahagsbrotalögreglan Økokrim við NRK að starfsemin sé gríðarlega umfangsmikil og nefnir sem merki um það að norskir peningaseðlar í miklu magni hafi skotið upp kollinum víða um heim, svo sem í sýrlenskum smáþorpum.

450 milljarðar sneru aftur

Árabilið 2018 til 2022 voru, eftir því sem NRK hefur komist á snoðir um, 36 milljarðar norskra króna í reiðufé fluttir til baka til Noregs, sú upphæð jafngildir 450 milljörðum íslenskra króna, 450.000 milljónum. Það jafngildir 19,7 milljónum norskra króna dag hvern, segir NRK, 246 íslenskum milljónum.

Engar tilkynningar voru gefnar um flutninginn út úr Noregi, en hverjum þeim sem fer með reiðufé út úr landinu ber að tilkynna tollgæslu um það nemi upphæðin hærri fjárhæð en 25.000 norskum krónum, eða rúmlega 312.000 íslenskum krónum miðað við gengi dagsins í dag.

Að sögn Pål Lønseth yfirmanns Økokrim fara 27 milljónir norskra króna, upphæð sem svarar til rúmlega 337 milljóna íslenskra króna, út úr Noregi hvern einasta dag ársins án þess að nokkuð sé látið uppi um nema örlítið brot þeirrar upphæðar.

Hvetur stofnunin til þess að þær upphæðir sem taka má út úr hraðbönkum í Noregi verði lækkaðar auk þess sem Lønseth telur það hreina firru að lögum samkvæmt megi fólk greiða allt að 40.000 krónur, 500.000 íslenskar, í reiðufé við hver einstök kaup á vörum eða þjónustu.

NRK

NRK-II (skorður verði settar)

NRK-III (tollgæslan komin með peningaleitarhund)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert