Franska lögreglan greindi frá því í dag að lögreglumenn hefðu skotið mann til bana sem gerði atlögu að þeim vopnaður hnífum. Atvikið átti sér stað í úthverfi í norðausturhluta Parísar.
Talsmaður lögreglunnar segir í samtali við AFP-fréttaveituna að tveir lögreglumenn hefðu haft afskipti af manni um kl. sjö í morgun að staðartíma (kl. sex í morgun að íslenskum tíma). Maðurinn sat í strætóskýli í Dugny.
Þá segir talsmaðurinn að maðurinn hafi veist að lögreglumönnunum án þess að segja orð.
Annar lögreglumannanna beitti rafbyssu á manninn en án árangurs. Þá beitti hinn lögreglumaðurinn skotvopni og særði manninn í brjóstkassann.
Þeir reyndu endurlífgun á staðnum þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Maðurinn lést hins vegar af sárum sínum að sögn lögreglu.
Málið er nú til rannsóknar, en meðal þess sem verið er að skoða er hvort lögreglan hafi misbeitt valdi sínu.
Fram kemur í umfjöllun AFP að árið 2023 hafi 36 manns látið lífið eftir afskipti lögreglu í landinu.