Tugir fórust í flugslysi í Súdan

Að minnsta kosti 46 fórust í flugslysinu.
Að minnsta kosti 46 fórust í flugslysinu. Ljósmynd/X

Að minnsta kosti 46 fórust þegar súdönsk herflugvél hrapaði í flugtaki í íbúðahverfi í útjaðri Khartoum í Súdan.

Frá þessu greinir súdanski herinn í yfirlýsingu en bæði hermenn og óbreyttir borgarar létust í slysinu og voru tíu manns fluttir slasaðir á nærliggjandi sjúkrahús.

Antonov-flugvélin fórst á þriðjudagskvöld nálægt Wadi Seidna-flugstöðinni, einni stærstu herstöð hersins í Omdurman, norðvestur af höfuðborginni, Khartoum.

Vitni lýstu því að hafa heyrt háværa sprengingu og séð nokkur heimili skemmd á svæðinu. Slysið olli einnig rafmagnsleysi í nærliggjandi hverfum.

Enn er óljóst hvað olli slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert