Útvarpsmaður rekinn fyrir ósæmileg ummæli

Útvarpsmaðurinn hefur beðist afsökunar á ummælunum sem hann lét falla …
Útvarpsmaðurinn hefur beðist afsökunar á ummælunum sem hann lét falla í þættinum. Ljósmynd/Colourbox

Ástralskur útvarpsmaður hefur verið látinn taka pokann sinn eftir að hann lét óviðeigandi og ósæmileg ummæli falla í útvarpsþætti um ástralska kvennalandsliðið í knattspyrnu. 

Maðurinn, Marty Sheargold, fékk að heyra það eftir að hann sagði í þætti á útvarpsstöðinni Triple M í fyrradag að hann myndi frekar láta „hamra nagla“ í gegnum getnaðarlim sinn fremur en að horfa á landsliðið keppa á næsta ári í Asíubikarnum, en keppnin verður haldin í Ástralíu. 

„Eru ekki einhverjar karlaíþróttir í boði?“ bætti hann við og uppskar hlátur frá öðrum útvarpsmönnum. Hann bætti svo um betur með því að segja að kvennalandsliðið minnti hann á unglingsstelpur.

Þátturinn tekinn af dagskrá

Sheargold hefur beðist afsökunar á ummælunum en talsmenn ABC News segja að þátturinn hafi verið tekinn af dagskrá og að útvarpsmaðurinn starfi ekki lengur hjá fyrirtækinu. 

„Ég geri mér fulla grein fyrir alvarleika ummæla minna,“ segir í yfirlýsingu sem Sheargold sendi frá sér þar sem hann bað landsliðið afsökunar. 

Ástralska knattspyrnusambandið segist hafa móttekið afsökunarbeiðnina en sagði um leið að það væri nauðsynlegt að tala um kvennaíþróttir af virðingu og á uppbyggilegan máta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert