Vonast til að funda með Trump í vikunni

Volodimír Selenskí og Donald Trump.
Volodimír Selenskí og Donald Trump. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, vonast til að eiga fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington í Bandaríkjunum í þessari viku. Markmið fundarins væri að ræða áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og samkomulag um aðgengi að mikilvægum málmum í Úkraínu.

Vilja Bandaríkjamenn, í skjóli samkomulagsins, fá aðgang að sjaldgæfum málmum og steinefnum í jörðu í Úkraínu, annaðhvort gegn fjárhagsaðstoð eða sem endurgreiðslu á þeirri fjárhagsaðstoð sem Bandaríkjamenn hafa þegar stutt Úkraínu með í innrásarstríðinu við Rússa sem í dag hefur staðið í þrjú ár.

Aukin spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna vegna þessa samkomulags, en Selenskí hafði upphaflega hafnað samkomulaginu á þeirri forsendu að samþykki hans jafngilti því að selja Úkraínu, en í fyrsta uppkasti að samkomulaginu var kveðið á um að Bandaríkin fengju í sinn hlut helming alls ágóða sem af úkraínsku auðlindunum fengist – án þess þó að þurfa að láta nokkuð af hendi í staðinn.

Selenskí segir að bandarískir og úkraínskir embættismenn vinni nú að því að finna tíma fyrir fund leiðtoganna, sem gæti mögulega farið fram á föstudag.

Erfið vinna fram undan

Seinni partinn í gær greindu embættismenn frá því að samkomulag hefði náðst á milli ríkjanna en Selenskí sagði aftur á móti við blaðamenn í Kænugarði að erfið vinna væri fram undan.

„Þetta er byrjun, þetta er rammasamkomulag,“ sagði hann við blaðamenn.

Frekari viðræður á milli bandarískra og úkraínskra embættismanna gætu haft áhrif á það með hvaða hætti verði hægt að tryggja öryggi Úkraínu og endanlegar fjárhæðir samkomulagsins.

„Þessi samningur gæti verið góður eða einfaldlega horfið. Hvort hann verði mjög góður, þá tel ég að það fari eftir samtali okkar við Trump forseta. Við drögum ályktanir eftir það,“ sagði Selenskí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert