Annar tónn í Trump: „Sagði ég það?“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP/Jim Watson

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist bera mikla virðingu fyrir Volodimír Selenskí Úkraínuforseta en þeir starfsbræður eiga saman fund á morgun í Washington í Bandaríkjunum.

Ummælin lét Trump falla á sameiginlegum blaðamannafundi í kvöld með forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer.

„Við eigum eftir að ná vel saman“

„Ég held að við munum eiga mjög góðan fund í fyrramálið. Við eigum eftir að ná vel saman,“ sagði Trump.

„Ég ber mikla virðingu fyrir honum.“

Trump hefur að undanförnu verið gagnrýninn á hve háar fjárhæðir hafa farið úr vasa Bandaríkjanna til Úkraínu en kvað við annan tón í forsetanum í kvöld.

„Hafa barist hetjulega“

Mun hann hitta Selenskí á morgun þar sem áætlað er að undirritað verði samkomulag á milli leiðtoganna um að Bandaríkin fái aðgang að sjaldgæfum málmum og steinefnum í jörðu í Úkraínu.

Er það hugsað sem endurgreiðsla Úkraínu til Bandaríkjanna fyrir þá fjárhagsaðstoð sem landið hefur stutt Úkraínu með í innrásarstríðinu við Rússa sem í dag hefur staðið í þrjú ár.

„Við erum búin að gefa honum mikinn búnað og mikinn pening en þeir hafa barist hetjulega,“ sagði Trump.

„Einhver þarf að nota þennan búnað og þeir hafi verið mjög hugrakkir í þeim skilningi.“

„Trúi ekki að ég hafi sagt þetta“

Trump vakti athygli og var gagnrýndur af þjóðarleiðtogum fyrir rúmri viku síðan er hann virtist kenna Úkraínu um að hafa hafið stríðið.

Þá kallaði hann einnig Selenskí einræðisherra, en þess ber að geta að Selenskí var réttkjörinn forseti þjóðarinnar árið 2019. Þá hefur Úkraína ekki haldið kosningar síðan vegna herlaga, sem lýst var yfir þegar Rússar hófu innrás sína 24. febrúar 2022.

Spurður um ummælin á blaðamannafundinum hafði Trump þetta að segja:

„Sagði ég það? Ég trúi ekki að ég hafi sagt þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert