Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hafnar þeim ummælum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur látið falla um að Evrópusambandið (ESB) „hafi verið stofnað til að svindla á Bandaríkjunum“.
Trump hefur hótað að leggja á 25% tolla á innfluttar vörur frá ESB en mikil spenna hefur verið í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar þessara hótana.
„Verum bara heiðarleg. Evrópusambandið var stofnað til að svindla á Bandaríkjunum,“ sagði Trump við blaðamenn í Washington í gær.
„Það er tilgangur þess og þeir hafa staðið sig mjög vel í því,“ bætti Trump við.
Tusk, sem er fyrrverandi forseti Evrópuráðsins, mótmælti þessum ummælum í færslu sem hann birti á X. „ESB var ekki stofnað til að svindla á neinum,“ skrifaði Tusk.
„Þvert á móti. Það var stofnað til að viðhalda friði, tryggja virðingu á milli ríkja, til að stuðla að frjálsum og sanngjörnum viðskiptum og til að styrkja vináttuna yfir Atlantshafið. Það er ekki flóknara en svo,“ skrifaði Tusk.
Pólland fer nú með formennsku í ráðherraráði ESB.
Fyrr í þessum mánuði sagði Tusk að menn yrðu að gera allt sem í sínu stæði til að koma í veg fyrir „algjörlega óþarft og heimskulegt“ viðskiptastríð.
Framkvæmdastjórn ESB hefur sagt að sambandið muni bregðast við fljótt og af festu fari svo að Trump leggi á nýja tolla.
The EU wasn’t formed to screw anyone. Quite the opposite. It was formed to maintain peace, to build respect among our nations, to create free and fair trade, and to strengthen our transatlantic friendship. As simple as that. 🇪🇺🇺🇸
— Donald Tusk (@donaldtusk) February 27, 2025