Eins og Trump hafi einsett sér að niðurlægja Selenskí

Þorgerður Katrín utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um fundinn í Hvíta …
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra ræddi við mbl.is um fundinn í Hvíta húsinu. Samsett mynd

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir það hafa verið eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti og varaforseti hans, J.D. Vance, hafi einsett sér að niðurlægja Volodimír Selenskí Úkraínuforseta á fundi þeirra í dag. 

Trump vísaði Selenskí á dyr í kjölfar þess að nær upp úr sauð á fundi þeirra og var blaðamannafundi þeirra, sem átti að hefjast að fundi loknum, aflýst.

Þá höfðu Trump og Vance þegar sakað Selenskí um vanvirðingu í garð Bandaríkjanna og sagt hann vanþakklátan.

Búinn að berjast fyrir lífi allrar Úkraínu

„Það er náttúrulega ótrúlegt að horfa upp á þetta eða hlusta á þetta. Það er alveg ljóst að Úkraína þarf á einhverri tryggingu frá Bandaríkjunum að halda, en þetta var eins og þeir hefðu einsett sér að mæta þarna – forsetinn og varaforsetinn – til þess að niðurlægja Selenskí,““ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is

Trump sakaði Selenskí á fundinum um að spila með líf milljóna manna og leika sér að því að hætta á þriðju heimsstyrjöldina. Segir Þorgerður þau ummæli Trumps hafa verið með öllu óviðeigandi.

„Trump forseti situr á móti manni sem er búinn að vera í þrjú ár að berjast, ekki bara fyrir lífi sínu og sinnar fjölskyldu sem er alltaf í felum, heldur lífi allrar Úkraínu og sjálfstæði þeirra.“

Skynsemi geti ekki byggst á niðurlægingu

Henni finnst málið miður og ekki góð birtingarmynd af heimsmálum.

„Ég vona samt að það sé hægt að vinda ofan af þessu, að það komist einhver skynsemi í þetta,“ segir Þorgerður og heldur áfram:

„En skynsemi getur aldrei byggst á einhverri niðurlægingu og að menn komi skríðandi til þjóðhöfðingja, sama hvaða nafni þeir nefnast, og ég vona bara að Trump-ríkisstjórnin skilji mikilvægi þess að það verði réttlátur og langvarandi friður tryggður í Úkraínu þar sem Úkraína er sjálfstæð og fullvalda og ræður yfir sínu landsvæði.“

Vinnan í átt að friði ekki minnkað

Hún segir að ekki megi gleyma því hver hafi ráðist á hvern.

„Það er Rússland sem er að vanvirða alþjóðalög og bara svívirða þau. Það er Rússland sem er ofbeldismaðurinn í þessu öllu saman og því fyrr sem menn átta sig á því, því fyrr er hægt að ná lausn sem tryggir bæði frið í Úkraínu en einnig meira öryggi í Evrópu,“ segir Þorgerður. 

„Vinnan í átt að friði – hún minnkaði ekki eftir þennan blaðamannafund.“

Aðspurð segir hún það áhyggjuefni hvernig fundur leiðtoganna hafi farið. Sama gildi um tilkynningu Trumps sem hann sendi frá sér stuttu eftir að Selenskí yfirgaf Hvíta húsið.

Örlagatímar og Evrópa verður að þétta raðirnar

„Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að Bandaríkin séu að stuðla að því að Pútín verði sterki maðurinn og standi með pálmann í höndunum, ég ætla að leyfa mér að neita að trúa því.“

Utanríkisráðherrann undirstrikar að Ísland, eins og Evrópa öll, standi með Úkraínu. Nauðsynlegt sé að réttlátur og langvarandi friður náist.

„Ég vil að það sé skýrt að okkar afstaða eftir þessa uppákomu í Hvíta húsinu – hún hefur ekkert breyst. Síður en svo, miklu frekar. Það er alveg ljóst eftir þennan fund að Evrópa verður að standa enn sterkar og Ísland þar á meðal. Við þurfum samhenta Evrópu og ég undirstrika að ég er ekki bara að tala um Evrópusambandið. Það eru örlagatímar og Evrópa öll verður að þétta raðirnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert