Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsir yfir stuðningi við Úkraínu í kjölfar spennuþrungins fundar Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í dag.
Macron áréttaði að sá sem hefði hafið stríðið væri Rússland.
„Ég held það hafi verið rétt hjá okkur öllum að hjálpa Úkraínu og beita Rússland viðurlögum fyrir þremur árum, og að halda því áfram,“ sagði Macron við blaðamenn.
Ummæli hans komu í kjölfar þess að Trump hótaði að draga stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu til baka ef Selenskí skrifaði ekki undir jarðefnasamning við Bandaríkin á fundi þeirra í dag.
Á fundinum hellti Trump sér yfir Selenskí og var Úkraínuforsetinn í kjölfarið beðinn um að yfirgefa Hvíta húsið.