Myndskeið: „Af hverju ertu ekki í jakkafötum?“

Volodimír Selenskí og Donald Trump á skrifstofu þess síðarnefnda í …
Volodimír Selenskí og Donald Trump á skrifstofu þess síðarnefnda í dag. AFP

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu var spurður að því, á fundi sínum með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu, hvers vegna hann klæddist ekki jakkafötum.

Spyrjandinn var Brian Glenn, sem starfar fyrir sjónvarpsstöðina Real America's Voice, en hún er til hægri og hefur meðal annars haldið á lofti samsæriskenningum um kosningasvindl árið 2020 og kenningum QAnon.

Benti hann á að Selenskí væri á fundi með æðsta embættismanni Bandaríkjanna og sagði að hann neitaði að vera í jakkafötum.

Ekki nægileg virðing

„Af hverju ertu ekki í jakkafötum?“ spurði Glenn.

„Áttu jakkaföt?“ bætti hann við og mátti sjá að spurningar hans vöktu kátínu varaforsetans J.D. Vance.

Selenskí spurði á móti hvort Glenn hefði eitthvað við klæðaburð hans að athuga.

Sagði Glenn að margir Bandaríkjamenn ættu bágt með að Selenskí sýndi bandaríska forsetaembættinu ekki nægilega virðingu.

Þegar stríðinu lyki

Selenskí svaraði og sagðist myndu klæðast „kostjúm“, en svo nefnast jakkaföt á úkraínsku, þegar stríðinu yrði lokið.

„Kannski einhverjum eins og þínum. Kannski einhverju betra, ég veit það ekki,“ sagði Selenskí og uppskar hlátur sumra á þéttsetinni skrifstofunni.

Gamanið átti þá heldur eftir að kárna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert