Volodimír Selenskí forseti Úkraínu var spurður að því, á fundi sínum með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu, hvers vegna hann klæddist ekki jakkafötum.
Spyrjandinn var Brian Glenn, sem starfar fyrir sjónvarpsstöðina Real America's Voice, en hún er til hægri og hefur meðal annars haldið á lofti samsæriskenningum um kosningasvindl árið 2020 og kenningum QAnon.
Benti hann á að Selenskí væri á fundi með æðsta embættismanni Bandaríkjanna og sagði að hann neitaði að vera í jakkafötum.
„Af hverju ertu ekki í jakkafötum?“ spurði Glenn.
„Áttu jakkaföt?“ bætti hann við og mátti sjá að spurningar hans vöktu kátínu varaforsetans J.D. Vance.
Selenskí spurði á móti hvort Glenn hefði eitthvað við klæðaburð hans að athuga.
Sagði Glenn að margir Bandaríkjamenn ættu bágt með að Selenskí sýndi bandaríska forsetaembættinu ekki nægilega virðingu.
Q: "Why don't you wear a suit?"
— CSPAN (@cspan) February 28, 2025
Ukrainian President Zelenskyy: "I will wear costume after this war will finish." pic.twitter.com/FzJqjIAQHa
Selenskí svaraði og sagðist myndu klæðast „kostjúm“, en svo nefnast jakkaföt á úkraínsku, þegar stríðinu yrði lokið.
„Kannski einhverjum eins og þínum. Kannski einhverju betra, ég veit það ekki,“ sagði Selenskí og uppskar hlátur sumra á þéttsetinni skrifstofunni.
Gamanið átti þá heldur eftir að kárna.