Myndskeið: Fóru hörðum höndum um Selenskí

„Þú ert að spila með líf milljóna manna. Þú ert …
„Þú ert að spila með líf milljóna manna. Þú ert að spila með þriðju heimsstyrjöldina og það sem þú ert að gera er vanvirðing við þetta land,“ bætti Trump við. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, áttu spennuþrunginn fund á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu í dag.

„Annað hvort gerirðu samning eða við erum hætt þessu,“ sagði Trump í reiði við Selenskí, á fundi leiðtoganna. Markmið fundarins var að draga úr spennu milli landanna.

„Þú ert að spila með líf milljóna manna. Þú ert að spila með þriðju heimsstyrjöldina og það sem þú ert að gera er vanvirðing við þetta land,“ fullyrti Trump.

Selenskí var í Hvíta húsinu til að skrifa undir samning um að deila jarðefnaauðlindum Úkraínu og til að ræða ræða friðarsamning við Rússland, þrátt fyrir að Bandaríkjaforseti hefði nýlega sagt úkraínskan starfsbróður sinn einræðisherra.

Sakaður um vanvirðingu á skrifstofu forseta

Eftir vikulangan aðdraganda átti fundur leiðtoganna sér stað í Hvíta húsinu í dag.

J.D. Vance, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, sagði Selenskí sýna Bandaríkjaforseta vanvirðingu á eigin skrifstofu. Trump tók undir með varaforseta sínum og ástandið varð sífellt spennuþrungnara.

„Þú virðist ekkert þakklátur,“ sagði Trump við Selenskí.

„Það verður mjög erfitt að stunda viðskipti svona,“ sagði Trump. „Þetta verður erfiður samningur vegna þess að viðhorfin verða að breytast.“

Selenskí svaraði Trump með rólegum tón en komst varla að þar sem Trump og Vance gripu ítrekað fram í fyrir honum.

„Ber mikla virðingu fyrir honum“

Eftir að hafa gagnrýnt Selenskí í síðustu viku og meðal annars sagt hann „einræðisherra án kosninga“ og kennt Úkraínu um innrás Rússa í febrúar 2022, hafði Trump fyrir fundinn mildað tón sinn í garð Úkraínuforseta.

„Ég ber mikla virðingu fyrir honum,“ sagði Trump um Selenskí á sameiginlegum blaðamannafundi með Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands í gær.

„Við eigum eftir að ná mjög vel saman.“

Sú varð ekki raunin ef marka má það sem fram fór á forsetaskrifstofunni fyrir opnum tjöldum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka