Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur gefið út stutta yfirlýsingu í kjölfar hitafundar þeirra Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þar sem sá síðarnefndi fór hörðum höndum um Selenskí ásamt varaforseta sínum, J.D. Vance.
Sögðu þeir Selenskí vanþakklátan og sökuðu hann einnig um að hafa vanvirt Bandaríkin á fundinum. Þá vísaði Trump honum á dyr að fundinum loknum.
Þorgerður Katrín segir Ísland standa með Úkraínu, í yfirlýsingunni sem birt er á X.
„Þið eruð ekki ein. Við styðjum Úkraínu af öllu hjarta þar sem þau reyna að ná fram réttlátum friði til frambúðar gegn tilefnislausri og ólöglegri innrás Rússa,“ segir Þorgerður.
Iceland stands with Ukraine. You are not alone. We wholeheartedly support Ukraine in their quest for just and lasting peace against the unprovoked and unlawful Russian aggression.
— Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (@thorgkatrin) February 28, 2025
Fylgir ráðherrann í kjölfar Donalds Tusk, forsætisráðherra Póllands og fyrrverandi forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem sendi Selenskí og Úkraínumönnum kveðju skömmu eftir að fundinum í Hvíta húsinu lauk.