„Ótrúlegt að fylgjast með því hvernig forseti Bandaríkjanna kemur fram við Selenskí, og þar með úkraínsku þjóðina, í Hvíta húsinu. Þetta er ekki bara ömurlegt virðingarleysi heldur vísbending um að Donald Trump er hliðhollari Rússum en Úkraínu.“
Þetta segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar sem situr í utanríkismálanefnd Alþingis og Íslandsdeild NATO-þingsins.
Tjáir hann sig á Facebook um fund Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta og Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu, sem vakið hefur mikla athygli – ekki síst fyrir það hvernig Trump og varaforsetinn J.D. Vance komu fram við gest þeirra.
Sigmar segir að heimsmyndin hafi gerbreyst síðustu vikur. Það kalli á að þjóðir Evrópu bregðist við og staðfesti með skýrum hætti stuðning sinn við Úkraínu.
„Þar verðum við Íslendingar að tala skýrt,“ skrifar Sigmar.
„Evrópuþjóðir, rétt eins og Bandaríkin, hafa stutt Úkraínu og varið til þess miklum fjármunum. Sem er eðlilegt og sjálfsagt í ljósi innrásar Rússa. Að setja fjárhagslega þumalskrúfu á stríðshrjáða þjóð, líkt og Bandaríkjamenn gera nú, er eitthvað sem þjóðir Evrópu eiga ekki að leika eftir, heldur þvert á móti. Mikið vona ég að orð og gjörðir Bandaríkjaforseta hætti að framkalla fagnaðarlæti í Kreml. Það er mikið í húfi.“