Donald Trump forseti Bandaríkjanna sagði fund sinn og Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta „ekki hafa gengið neitt sérlega vel“ þegar hann ræddi við blaðamenn að loknum fundinum þar sem næstum sauð upp úr á milli forsetanna tveggja. BBC greinir frá.
Sagði Trump Selenskí hafa beitt of miklum þrýstingi og endurtók að Úkraínuforseti hefði mjög léleg spil á hendi í hugsanlegum friðarviðræðum, en Bandaríkjaforseti vísaði kollega sínum á dyr í kjölfar fundarins.
Trump sagði jafnframt að Selenskí kæmi fram sem sterkur leiðtogi ef hann undirritaði samkomulag um jarðefnaauðlindir, sem til stóð að undirrita í Hvíta húsinu í gær. „Hann vill bara halda áfram að berjast, berjast, berjast, en við viljum binda enda á dauðann,“ sagði Trump við blaðamenn.
Spurður hvað Úkraínuforseti þyrfti að gera til að taka upp samtalið að nýju sagði Trump hann þurfa að segja: „Ég vil koma á friði.“
Þá ítrekaði Bandaríkjaforseti hótanir sínar um að hætta stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu. „Annaðhvort bindum við enda á þetta eða látum hann sjálfan berjast.“