Selenskí: Þurfum á stuðningi Trumps að halda

„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning Trumps forseta. …
„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning Trumps forseta. Hann vill binda enda á stríðið, en enginn vill frið meira en við,“ sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðlum. AFP/Saul Loeb

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir land sitt enn þurfa á stuðningi Donalds Trump Bandaríkjaforseta að halda, þrátt fyrir hitafund gærdagsins.

Trump sakaði Selenskí meðal annars um vanþakklæti gegn hernaðaraðstoð Bandaríkjanna á fundinum í gær og skrifaði síðar á samfélagsmiðlum að Úkraínuforseti hefði „vanvirt Bandaríkin“.

Reiðubúinn að undirrita samninginn

„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning Trumps forseta. Hann vill binda enda á stríðið, en enginn vill frið meira en við,“ sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðlum.

Selenskí hafði ætlað að skrifa undir langþráðan jarðefnasamning við Bandaríkin á sameiginlegum blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær en var vísað á dyr í kjölfar spennuþrungins fundarins.

„Við erum reiðubúin að undirrita jarðefnasamninginn og það mun vera fyrsta skrefið í átt að öryggisábyrgð,“ sagði hann.

Forveri Selenskí lýsti yfir stuðning

Leiðtogar og stjórnmálamenn í Evrópu lýstu margir yfir stuðningi við Selenskí og Úkraínu í kjölfar fundarins í gær.

Petro Poroshenko, pólitískur keppinautur Selenskí og forveri, virtist einnig verja hann í færslu á Facebook.

„Sumir bjuggust við að ég myndi gagnrýna Selenskí. En nei, það verður engin gagnrýni, því það er ekki það sem landið þarfnast núna,“ sagði hann.

Bætti hann þó við: „Við vonum virkilega að Selenskí forseti hafi varaáætlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert