Stjórnvöld í Bretlandi og Úkraínu hafa undirritað lánssamning upp á um 400 milljarða íslenskra króna (2,26 milljarða punda eða 2,74 milljarða evra), til að styðja við varnarviðbúnað Úkraínu.
Stjórnvöld í Bretlandi sögðu samninginn merki um „óbilandi og viðvarandi stuðning okkar við úkraínsku þjóðina“.
Fjármálaráðherrar landanna tveggja, Rachel Reeves og Sergii Marchenko, undirrituðu lánið við athöfn í gegnum fjarfundabúnað þegar Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hitti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í London.
Selenskí sagði lánið frá Bretlandi koma til með að fjármagna framleiðslu vopna í Úkraínu.
„Fjármununum verður beint að vopnaframleiðslu í Úkraínu,“ sagði hann.
„Ég þakka íbúum og ríkisstjórn Bretlands fyrir gífurlegan stuðning þeirra alveg frá upphafi þessa stríðs.“
Lánið á að greiða til baka með hagnaði af frystum rússneskum eignum.
Selenskí sagði stuðning Trumps enn mjög mikilvægan fyrir Úkraínu fyrr í dag, þrátt fyrir atburði gærdagsins.
Trump gagnrýndi Selenskí á fundinum í Hvíta húsinu í gær fyrir að vera ekki „tilbúinn“ fyrir frið í stríðinu, sem kveikti viðvörunarbjöllur um alla Evrópu.
„Gærkvöldið undirstrikaði að ný öld svívirðinga er hafin,“ sagði Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, og Starmer voru meðal nokkurra annarra leiðtoga Evrópu sem ítrekuðu stuðning sinn við Úkraínu eftir fundinn.
Mark Rutte, yfirmaður NATO, sagði í viðtali við BBC að hann hefði sagt Selenskí að hann yrði að finna leið til að endurheimta samband sitt við Trump.
Rússneskir stjórnmálamenn voru þó ánægðir með hitafundinn.
Dimitrí Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, kallaði Selenskí „ósvífið svín“ sem hefði „loksins“ fengið „alvöru skell“.
Þrátt fyrir að Selenskí hafi yfirgefið Hvíta húsið án þess að hafa undirritað samninginn um sjaldgæf steinefni Úkraínu, sagðist hann enn vera tilbúinn til að skrifa undir, sem „fyrsta skrefið í átt að öryggisábyrgð“.
„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning Trumps forseta. Hann vill binda enda á stríðið, en enginn vill frið meira en við,“ sagði Selenskí í færslu á samfélagsmiðlum.
Á morgun mun Selenskí mæta á neyðarfund við evrópska stuðningsmenn Úkraínu, þar sem Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, mun mæta meðal annarra.