Bretar og Frakkar munu vinna að friði með Úkraínu

Selenskí og Starmer áttu fund í London í gær.
Selenskí og Starmer áttu fund í London í gær. AFP/Peter Nicholls

Bretar og Frakkar ætla að vinna með Úkraínu í að binda endi á stríðið í landinu sem Rússar hófu með innrás fyrir þremur árum. Áformin verða kynnt Bandaríkjaforseta síðar.

Frá þessu greindi Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, í samtali við BBC í dag.

„Bretland, ásamt Frakklandi og hugsanlega einu eða tveimur öðrum ríkjum, ætla að vinna með Úkraína við að koma á friði í landinu, og við munum ræða þá áætlun við Bandaríkin,“ sagði Starmer við BBC.

Hann átti fund með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í gær og í dag munu leiðtogar tuga Evrópuríkja funda í London um málefni Úkraínu og hvernig megi binda enda á stríðið í landinu. Selenskí mun einnig sitja þann fund.

Verða að finna leið til að geta unnið saman

Boðað var til fundarins á föstudagsmorgun, áður en hitafundur Selenskí og Donald Trump Bandaríkjaforseta átti sér stað í Hvíta húsinu. Þar má segja að bæði Trump og JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hafi niðurlægt Selenskí, en þeir sögðu hann vanþakklátan og sökuðu hann um að vanvirða Bandaríkin. Í ljósi þeirra vendinga þykir fundurinn í dag enn mikilvægari en áður.

Starmer sagði í samtali við BBC að enginn vildi sjá svona uppákomur á milli leiðtoganna. Þá sagðist hann jafnframt vera sannfærður um að Trump vildi sjá varanlegan frið í Úkraínu.

Starmer hefur komið fram sem einhvers konar brúarsmiður á milli Bandaríkjanna og Evrópu, en hann átti fund með Trump í síðustu viku.

„Við verðum að finna leið til að geta öll unnið saman. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur stríð varað í þrjú ár. Nú þurfum við að koma á varanlegum friði.“

Nefndi Starmer þrjú skilyrði fyrir friði; sterk Úkraína, bæði hvað samningstöðu og hernað varðar, evrópskar öryggistryggingar og að hafa Bandaríkin sem bakhjarl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert