Hamas-samtökin segja ákvörðun Ísraela um að stöðva flutning hjálpargagna og birgða til Gaza vera „stríðsglæp“ og brot á samkomulagi um vopnahlé.
Í yfirlýsingu frá samtökunum er ákvörðun Benjamins Netanyahu sögð vera “ódýr leið til kúgunar, stríðsglæpur og brot á vopnahléssamkomulagi.“
Tilkynnt var um það í morgun að allur flutningur á hjálpargögnum og birgðum til Gaza yrði stöðvaður þar til Hamas-samtökin samþykktu að framlengja fyrsta áfanga vopnahlésins,
Ísraelar hafa samþykkt tillögu Bandaríkjamanna um framlengingu á fyrsta áfanga vopnahlésins, en Hamas-samtökin segja að Ísraelar verði að samþykkja innleiðingu annars áfanga til að fleiri gíslum veðri sleppt úr haldi.
Annar áfangi felur í sér algjört brotthvarf ísraelska hersins frá Gaza og að samið verði um varanlegt vopnahlé.
Fyrsta áfanga vopnahlésins átti að ljúka í gær.
Tillaga bandaríkjamanna felur í sér framlengingu á fyrsta áfanganum fram yfir ramadan, heilagan föstumánuð múslima, og páskahátíð gyðinga, og myndi því gilda til 20. Apríl.