Stöðva flutning birgða og hóta frekari afleiðingum

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra fyrirskipar að flutningur gagna og birgða verði …
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra fyrirskipar að flutningur gagna og birgða verði stöðvaður. AFP/Evelyn Hockstein

Ísraelar hafa gefið út yfirlýsingu um að flutningur hjálpargagna og birgða til Gasa verði stöðvaður nema Hamas-samtökin samþykki tillögu Bandaríkjamanna um að framlengja fyrsta áfanga vopnahlés á Gasa. Frekari afleiðingum er einnig hótað. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Benjamin Netanjahú forsætisráðherra hefur ákveðið að frá og með þessum morgni verði flutningur á birgðum og gögnum til Gasa stöðvaður,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ísraelar munu ekki samþykkja vopnahlé án þess að gíslum verði sleppt. Ef Hamas-samtökin halda áfram að neita mun það hafa frekari afleiðingar í för með sér,“ segir þar jafnframt.

Vilja framlengja fyrsta áfanga fram yfir páska

Ísraelar hafa samþykkt tillögu Bandaríkjamanna um framlengingu á fyrsta áfanga vopnahlésins, en Hamas-samtökin segja að Ísraelar verði að samþykkja innleiðingu annars áfanga til að fleiri gíslum veðri sleppt úr haldi.

Annar áfangi felur í sér algjört brotthvarf ísraelska hersins frá Gasa og að samið verði um varanlegt vopnahlé.

Fyrsta áfanga vopnahlésins átti að ljúka í gær.

Tillaga Bandaríkjamanna felur í sér framlengingu á fyrsta áfanganum fram yfir ramadan, heilagan föstumánuð múslima, og páskahátíð gyðinga, og myndi því gilda til 20. apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert