Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í gærkvöldi í kjölfar þess er skotum var hleypt af í Fruängen í suðurborginni, en tveir táningspiltar eru alvarlega særðir skotsárum og liggja nú á sjúkrahúsi.
Það var upp úr klukkan 21 að sænskum tíma, 20 á Íslandi, sem lögregla og sjúkralið óku með forgangi að torginu í Fruängen eftir að tilkynningar vegfarenda um skothvelli höfðu borist.
„Tvær manneskjur eru mjög alvarlega lemstraðar,“ segir Per Fahlström upplýsingafulltrúi lögreglunnar við sænska ríkisútvarpið SVT og bætir því við að lögregla rannsaki málið nú sem tilraun til manndráps og stórfellt vopnalagabrot.
Lokaði lögreglan af stóru svæði umhverfis vettvanginn auk þess sem árásarmanns eða -manna var leitað með fulltingi lögregluhunda og þyrlu lögreglunnar. Ræðir lögregla nú við vitni auk þess að sanka að sér upptökum öryggismyndavéla í nágrenninu.
Það var svo um þrjúleytið í nótt að staðartíma sem lögregla hafði hendur í hári manns sem reyndist bera skotvopn við buxnastreng sinn og var hann handtekinn, grunaður um að hafa átt hlut að máli. Vill lögregla að öðru leyti ekki tjá sig um handtekna.
Að sögn Ola Österling, annars upplýsingafulltrúa lögreglunnar sem ræddi við SVT í morgun, er of skammt liðið á rannsókn málsins til að slá megi því föstu að um væringar milli glæpagengja borgarinnar sé að ræða.
Útilokar Österling ekki að fleiri verði handteknir og svarar því játandi að lögregla skoði tengsl við aðrar skotárásir, en til einnar slíkrar kom enn fremur í Norsborg í sveitarfélaginu Botkyrka, um 20 kílómetra suðvestur af Stokkhólmi.