Alvarlega lemstraðir eftir skotárás

Tveir ungir menn liggja alvarlega særðir á sjúkrahúsi í Stokkhólmi …
Tveir ungir menn liggja alvarlega særðir á sjúkrahúsi í Stokkhólmi eftir skotárás við Fruängen-torgið í samnefndu hverfi í suðurborginni í gærkvöldi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Holger Ellgaard

Mik­ill viðbúnaður var hjá lög­regl­unni í sænsku höfuðborg­inni Stokk­hólmi í gær­kvöldi í kjöl­far þess er skot­um var hleypt af í Fruängen í suður­borg­inni, en tveir tán­ings­pilt­ar eru al­var­lega særðir skotsár­um og liggja nú á sjúkra­húsi.

Það var upp úr klukk­an 21 að sænsk­um tíma, 20 á Íslandi, sem lög­regla og sjúkra­lið óku með for­gangi að torg­inu í Fruängen eft­ir að til­kynn­ing­ar veg­far­enda um skot­hvelli höfðu borist.

„Tvær mann­eskj­ur eru mjög al­var­lega lemstraðar,“ seg­ir Per Fahlström upp­lýs­inga­full­trúi lög­regl­unn­ar við sænska rík­is­út­varpið SVT og bæt­ir því við að lög­regla rann­saki málið nú sem til­raun til mann­dráps og stór­fellt vopna­laga­brot.

Bar skot­vopn við buxn­a­streng

Lokaði lög­regl­an af stóru svæði um­hverf­is vett­vang­inn auk þess sem árás­ar­manns eða -manna var leitað með fulltingi lög­reglu­hunda og þyrlu lög­regl­unn­ar. Ræðir lög­regla nú við vitni auk þess að sanka að sér upp­tök­um ör­ygg­is­mynda­véla í ná­grenn­inu.

Það var svo um þrjú­leytið í nótt að staðar­tíma sem lög­regla hafði hend­ur í hári manns sem reynd­ist bera skot­vopn við buxn­a­streng sinn og var hann hand­tek­inn, grunaður um að hafa átt hlut að máli. Vill lög­regla að öðru leyti ekki tjá sig um hand­tekna.

Að sögn Ola Österl­ing, ann­ars upp­lýs­inga­full­trúa lög­regl­unn­ar sem ræddi við SVT í morg­un, er of skammt liðið á rann­sókn máls­ins til að slá megi því föstu að um vær­ing­ar milli glæpa­gengja borg­ar­inn­ar sé að ræða.

Útil­ok­ar Österl­ing ekki að fleiri verði hand­tekn­ir og svar­ar því ját­andi að lög­regla skoði tengsl við aðrar skotárás­ir, en til einn­ar slíkr­ar kom enn frem­ur í Nors­borg í sveit­ar­fé­lag­inu Bot­kyrka, um 20 kíló­metra suðvest­ur af Stokk­hólmi.

SVT

Aft­on­bla­det

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert