Bandaríska fjárfestingarfélagið BlackRock hefur samþykkt að kaupa tvær hafnir sitt hvoru megin við Panamaskurðinn af kínversku fyrirtæki sem hafði reitt Donald Trump Bandaríkjaforseta til reiði vegna eignarhaldsins.
Trump hefur undanfarið verið mjög ósáttur með að eignarhald á Panamaskurðinum hafi verið í eigu kínverska fyrirtækja og hafði hann hótað að beita hervaldi og efnahagsþvingunum til að fá skurðinn aftur á sitt vald.
„Kína rekur Panamaskurðinn og við gáfum Kína ekki hann. Við gáfum Panama hann og við tökum hann til baka,“ sagði Trump í innsetningaræðu sinni í janúar.
Í tilkynningu um kaupin í dag var tilkynnt að BlackRock og samtök annarra fjárfesta mynda verja 22,8 milljörðum dollara til að kaupa hafnirnar tvær. Sagði jafnframt að kaupin væru ekki af pólitískum toga.
Panamaskurðurinn er 82 kílómetra langur skipaskurður sem liggur um Panamaeiðið og tengir saman Atlantshaf og Kyrrahaf. Bandaríkin unnu að gerð skurðarins og var hann fullgerður árið 1914. Skurðurinn var að mestu rekinn af Bandaríkjamönnum fram til ársins 1999, en þá var hann afhentur Panamamönnum skv. skilmálum samnings sem Carter-stjórnin gerði á sínum tíma við lítinn fögnuð repúblikana.
Skurðurinn hefur verið lykilþáttur í efnahagslífi Panama en Trump hefur einnig viðrað þá kröfu sína að Panama hætti að innheimta gjöld af bandarískum skipum sem fara um skurðinn en stórt hlutfall ferða bandarískra flutnings- og herskipa fara um skurðinn.