Trudeau gagnrýnir „heimskulega“ tolla Trumps

Trudeau gagnrýndi Trump harðlega á blaðamannafundinum í dag.
Trudeau gagnrýndi Trump harðlega á blaðamannafundinum í dag. AFP/Dave Chan

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada fordæmdi harðlega „heimskulegu“ tolla Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem tóku gildi á vörur frá Kanada á miðnætti á blaðamannafundi í dag. Sakaði hann forsetann um að reyna koma efnahagskerfi Kanada í uppnám til þess að gera það auðveldara fyrir hann að gera Kanada að 51. ríki Bandaríkjanna. 

Á miðnætti á bandarískum tíma tóku gildi 25% flatir tollar á flestar vörur frá Kanada. Svaraði Kanada í sömu mynt og hefur sett á 25% tolla á valda vöruflokka frá Bandaríkjunum auk þess sem ríkið hefur hótað því að setja á mun umfangsmeiri tolla innan þriggja vikna láti Bandaríkin ekki af tollastefnunni.

Má því segja að tollastríð sé hafið á milli ríkjanna en Kanada er eitt af þrem helstu viðskiptaríkjum Bandaríkjanna.

Snjall maður að gera heimskulega hluti

Trudeau var ómyrkur í máli varðandi tollastefnu Trump á blaðamannafundinum í dag. Sagði hann Trump vera snjallan mann en að ásetningur tolla væri „mjög heimskulegur hlutur að gera.“

Ljóst er að tollastríð er skollið á milli ríkjanna.
Ljóst er að tollastríð er skollið á milli ríkjanna. AFP/Andrej Ivanov

Trump hefur sagt að aðgerðirnar séu nauðsynlegar til að þvinga Kanadamenn til aðgerða gegn straumi óskráðra innflytjenda og lyfsins fentanýls yfir landamærin. Trudeau hefur haldið því fram að Kanada eigi ekki stóran þátt í þessum vandamálum Bandaríkjanna. Sagði hann meðal annars rökstuðning Trumps um flutning fentanýls „algjörlega rangan.“

Hafi neikvæðar afleiðingar fyrir bandarískar fjölskyldur

Á blaðamannafundinum ávarpaði Trudeau bandarísku þjóðina og sagði að tollastríðið myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir bandarískar fjölskyldur. 

„Þín ríkisstjórn hefur kosið að gera þér þetta,“ sagði hann. 

Lagði Trudeau áherslu á að tollunum yrði aflétt eins fljótt og auðið er og kveðst hann tilbúinn til að ræða beint við Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert