Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, segir að Mexíkó muni svara fyrir sig eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti setti á 25% tolla á vörur frá Mexíkó og Kanada, auk 20% tolla frá Kína.
Sakaði hún Trump um ófrægingarherferð gagnvart ríkisstjórn hennar.
Á ríkisstjórnarfundi í morgun sagði hún enga ástæðu eða réttlætingu fyrir tollunum. Áður höfðu bæði Kanada og Kína lýst að þau myndu setja tolla á ákveðnar vörur frá Bandaríkjunum til að svara ákvörðun Trumps.
Sagði hún að yfirvöld í Mexíkó myndu leita að niðurstöðu í málinu með samnignum, en tók jafnframt fram að einhliða ákvörðun Bandaríkjanna hefði áhrif á bæði innlend og erlend fyrirtæki í Mexíkó. Því hefði ríkisstjórnin ákveðið að svara með tollum og öðrum aðgerðum, en að nánari upplýsingar um þær aðgerðir kæmu síðar.
Sakaði hún Trump um ófrægingarherferð eftir að vísað var til þess í yfirlýsingu um tollana frá Hvíta húsinu að yfirvöld í Mexíkó væru skálkaskjól fyrir glæpagengi.