J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hefur strokið mörgum andhæris með ummælum sem hann lét falla um mögulega þátttöku alþjóðlegra hersveita sem væri ætlað að annast friðargæslu náist friðarsamkomulag í Úkraínu.
Í umfjöllun á vef breska ríkisútvarpsins segir frá því að breskir stjórnarandstæðingar hafi sakað Vance um að hafa vanvirt breskar hersveitir þegar hann fór yfir stöðu mála í samtali við Fox News í Bandaríkjunum.
Þar sagði hann að þátttaka Bandaríkjanna væri „betri trygging fyrir öryggi en 20.000 hermenn frá einhverjum handahófskenndum ríkjum sem hafa ekki tekið þátt í stríði í 30 til 40 ár.“
Bæði bresk og frönsk stjórnvöld hafa sagt að þau séu reiðbúin að senda hermenn til Úkraínu, sem væri þá hluti af friðarsamkomulaginu.
Vance hefur vísað þessum ásökunum á bug en hann heldur því fram að hann hafi hvorki minnst á Bretland né Frakkland. Hann bætti því við að bæði ríkin hafi barist hetjulega við hlið Bandaríkjanna undanfarin 20 ár og lengur.
Vance útskýrði þó ekki frekar til hvaða ríkja hann hafi verið að vísa í samtali sínu við Fox News.
„En tölum bara hreint út. Það eru margar þjóðir sem eru að bjóða sig fram stuðning (á bak við tjöldin og opinberlega) sem hafa hvorki reynslu af stríðssvæðum né þau hergögn til að gera eitthvað sem máli skiptir,“ skrifaði Vance í færslu sem birtist á samfélagsmiðlum.