Setja fram plan um „endurhervæðingu Evrópu“

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, hefur sett fram fimm ára plan til að safna samtals 800 milljörðum evra til að verja í varnir fyrir Evrópu og aðstoða við aðkallandi hernaðaraðstoð við Úkraínu eftir að Bandaríkin gerðu hlé á allri hernaðaraðstoð við Úkraínu.

„Nýtt tímabil er runnið upp,“ sagði von der Leyen í bréfi til leiðtoga Evrópusambandsríkja þar sem hún kynnti planið.

Tilkynnt var um það í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði gert hlé á allri hernaðaraðstoð til Úkraínu, en með því stöðvast allur flutn­ing­ur her­gagna frá Banda­ríkj­un­um til Úkraínu. Allt frá inn­rás Rússa inn í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hafa Banda­ríkja­menn verið helstu stuðnings­menn Úkraínu­manna. 

Þessi aðgerð Trumps kem­ur í kjöl­far viðræðna hans við Volodimír Selenskí, for­seta Úkraínu, í Hvíta hús­inu þar sem upp úr sauð og endaði með því að Trump vísaði Selenskí á dyr.

Sagði von der Leyen jafnframt að Evrópu stæði nú frammi fyrir ógn sem ekkert þeirra hefði upplifað á sínum fullorðinsárum.

Endurhervæðing Evrópu

Planið, sem gengur undir heitinu Endurhervæðing Evrópu (e. ReArm Europe), gengur út á að Evrópusambandsríki verji nálægt 800 milljörðum evra, eða sem nemur 121.300 milljörðum íslenskra króna, í aukin varnarútgjöld.

Fyrsti hluti plansins gengur út á að auka aðhald ríkjanna í ríkisfjármálum þannig að þau geti aukið útgjöld til varnarmála.

Sagði von der Leyen að þessi aðgerði myndi leiða til þess að ríkin gætu bætt verulega í á varnarútgjaldahliðinni án þess að það myndi leiða til mikils hallareksturs.

150 milljarða evra lánalína 

Næsta skref er svo 150 milljarða evra lánalína til aðildarríkjanna til að verja í varnarmálafjárfestingar.

Sagði hún að planið gengi út á að verja fjármunum betur og að verja þeim saman. Sagði hún að með þessu gætu Evrópusambandsríkin aukið stuðning sinn við Úkraínu gríðarlega.

Þriðja skrefið er svo að ríkin myndu samþykkja að nota meira af fjármunum Evrópusambandsins í fjárfestingar í varnarmálum.   

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, kynnir plan sambandsins …
Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, kynnir plan sambandsins um mikla aukningu útgjalda til varnarmála. AFP/Nicolas Tucat
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert