Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert hlé á hernaðaraðstoð við Úkraínumenn að sögn embættismanns í Hvíta húsinu og fjölmiðla í Bandaríkjunum.
Þar með stöðvast allur flutningur hergagna frá Bandaríkjunum til Úkraínu en allt frá innrás Rússa inn í Úkraínu fyrir þremur árum hafa Bandaríkjamenn verið helstu stuðningsmenn Úkraínumanna.
Tilskipun forsetans um að gera hlé á allri núverandi hernaðaraðstoð Bandaríkjamanna við Úkraínu tekur strax gildi og nær til alls bandarísks herbúnaðar sem ekki er í Úkraínu, þar á meðal vopn í flutningi og í geymslum í Póllandi.
Þessi aðgerð Trumps kemur í kjölfar viðræðna hans við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í Hvíta húsinu þar sem upp úr sauð og endaði með því að Trump vísaði Selenskí á dyr.
„Forsetinn hefur verið skýr. Hann einbeitir sér að friði og við þurfum á því að halda að samstarfsaðilar okkar séu einnig skuldbundnir til þess markmiðs,“ sagði ónafngreindur embættismaður í Hvíta húsinu í við AFP-fréttaveituna en Trump hefur haldið því fram að Selenskí sé ekki reiðubúinn að semja frið við Rússa og er óhress með vanþakklæti Selenskí í garð Bandaríkjanna.
„Við erum að stöðva hernaðaraðstoð og endurskoða aðstoð okkar til að tryggja að hún stuðli að lausn,“ sagði embættismaðurinn enn fremur.
Demókratar á bandaríska þinginu hafa fordæmt ákvörðun Trumps en ákvörðun hans hefur þegar tekið gildi. Trump hefur haldið því fram að núna sé það Selenskí sem sé stærsta hindrunin í vegi friðarsamkomulags en ekki Vladimír Pútín Rússlandsforseti.