Ríkisstjórn Noregs, með Astri Aas-Hansen dómsmálaráðherra í broddi fylkingar boðar frumvarp til svokallaðra samþykkislaga (n. samtykkelov) sem þegar hefur vakið harðar deilur meðal löglærðra þrátt fyrir að enginn hafi enn sem komið er séð frumvarpið.
Er samþykkislögunum ætlað að innramma hvaða brot það séu sem lögfræðilega séð geti fallið undir refsiákvæði norsku hegningarlaganna um nauðgun og hverjar formkröfur samþykkis til kynlífsathafna verði, nái frumvarpið fram að ganga.
„Allir í Noregi eiga að geta upplifað sig örugga. Við sjáum að þegar um kynlífstengt ofbeldi er að ræða er það mjög mikilvægt að við tryggjum betra lagaumhverfi hér í Noregi,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Aas-Hansen.
Svo frumvarpið verði afgreitt fyrir sumarið þarf að leggja það fram fyrir apríllok og hét forveri Aas-Hansen í dómsmálaráðuneytinu, Emilie Enger Mehl, því í desember að frumvarpið liti dagsins ljós fyrir páska sem í ár eru um miðjan apríl.
Eftir því sem NRK greinir frá er efnislegt inntak frumvarpsins líkast til á þá leið að þeim eða þeirri sem hyggst hafa kynmök við aðra persónu beri lagaleg skylda til að ganga úr skugga um að mótaðili sé sama sinnis áður en gengið er til verks.
Samþykki til kynmaka geti hvor eða hver aðila sem er dregið til baka hvenær sem vera skyldi og kynmök án þess að samþykkið liggi fyrir sé nauðgun.
Lagaleg skilgreining kynmaka í Noregi er – fyrir utan hin hefðbundnu mök – hvers kyns færsla líkamshluta eða annarra hluta inn í líkamsop.
Frida Marie Grande er fórnarlamb nauðgunar og hefur sinnt hagsmunagæslu hjá mannréttindasamtökunum Amnesty og tekið þar þátt í að leggja á ráðin um mótmælaherferðir til stuðnings fórnarlömbum nauðgana. Grande lýsir ánægju sinni með frumvarpið í samtali við NRK og telur væntanleg lög leggja línurnar um hvar mörkin liggi.
„Með samþykkislögum verður mögulegt að dæma fleiri í þeim hópi sem hefði átt að hljóta dóm. Það er gríðarlega mikilvægt skref fyrir okkur,“ segir hún. „Þú verður þess fljótlega áskynja hvort hinn aðilinn sé samþykkur eða ekki. Sértu í vafa er betra að spyrja.“
Mette Yvonne Larsen lögmaður starfar hvort tveggja sem réttargæslumaður og verjandi. Var hún til að mynda réttargæslumaður aðstandenda fórnarlamba fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks og ræddi á sínum tíma við mbl.is um manndrápsmál íslenskra hálfbræðra í Mehamn árið 2019 þar sem hún kom einnig fram sem réttargæslumaður.
Larsen hefur illan bifur á frumvarpinu.
„Ég óttast fleiri dómsmorð,“ segir Larsen við NRK og fer ekki í neinar grafgötur með að hún telji engan veginn að fleiri nauðgunarmál leysist í ljósi nýju laganna, líti þau dagsins ljós.
„Hér er málið ekki hugsað til enda. Þetta er ekki nægilega rökstutt og okkur er engin þörf á þessari refsiheimild,“ segir lögmaðurinn.
Mikill úlfaþytur hefur verið um frumvarpið sem hefur verið í burðarliðnum allar götur frá hinni svokölluðu Hurdals-samþykkt, 81 blaðsíðu stefnuskrá ríkisstjórnar Verkamannaflokksins og Miðflokksins (sem nýlega sleit stjórnarsamstarfinu) sem varð til á fundi þá nýrrar ríkisstjórnar á hóteli í Hurdal, miðja vegu milli Óslóar og Hamars, haustið 2021.