Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti Grænland til að sameinast Bandaríkjunum þegar hann flutti stefnuræðu sínu á Bandaríkjaþingi í gærkvöldi. Hann bætti við að annars myndi hann ná landinu á sitt vald „með einum eða öðrum hætti“.
Dönsk stjórnvöld brugðust skjótt við í dag og sögðu að það kæmi ekki til greina.
„Það er ekki að fara gerast,“ sagði Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, í samtali við danska ríkisútvarpið, DR.
„Það er í höndum Grænlendinga sjálfra að taka ákvörðun um hvert þeir vilji stefna,“ bætti ráðherrann við.
Í stefnuræðu sinni stiklaði Trump aðeins á stóru hvað varðar alþjóðamál. Hann lagði að mestu áherslu á markmið sín innanlands eins og að elta uppi óskráða innflytjendur og draga verulega úr opinberum útgjöldum.
Trump lagði þó áherslu á útþenslustefnu Bandaríkjanna þar sem hann ítrekaði áhuga sinn á því að ná Grænlandi undir sitt vald og þá lýsti hann yfir sigri þegar hann sagði að Bandaríkin hefðu aftur náð stjórn á Panamaskurðinum.
Forsetinn sagðist í ræðu sinni vera með skilaboð til Grænlendinga, en þeir munu ganga til þingkosninga í landinu í næstu viku.
„Við styðjum dyggilega rétt ykkar til sjálfsákvörðunar, og ef þið kjósið, þá munum við bjóða ykkur velkomin til Bandaríkjanna.“
Hann bætti svo við að hann myndi ekki gefast auðveldlega upp, fari svo að Grænlendingar myndu ekki vilja ganga inn í Bandaríkin sjálfviljugir. „Við munum ná þeim með einum eða öðrum hætti,“ sagði Trump.
„Við munum tryggja öryggi ykkar, við munum gera ykkur rík, og saman munum við færa Grænland upp á hæðir sem þið tölduð aldrei mögulegt að komast upp á.“
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, hvatti fólk til að halda ró sinni.
„Ég held að allir, þar á meðal við, eigi að stíga varlega til jarðar hvað varðar allar mögulegar skoðanir varðandi framtíðina [Grænlands],“ sagði hann í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2.