Örlög Evrópu ekki ákveðin í Moskvu eða Washington

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í kvöld.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sína í kvöld. AFP/Ludovic Marin

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði í kvöld þjóð sína um ástandið í Úkraínu og þá hættu sem Evrópu stafaði af Rússum.

Sagði Macron í ávarpi sínu að ágengni Rússa „þekkti engin landamæri“, og að Frakkar og evrópskir bandamenn þeirra yrðu að bregðast við. 

„Rússland er orðið, á þeirri stundu sem ég ræði við ykkur og á komandi árum, ógn við Frakkland og Evrópu,“ sagði Macron meðal annars og bætti við að það myndi vera glapræði að sitja hjá í hættulegum heimi.

„Örlög Evrópu ættu ekki að vera ákveðin í Washington eða Moskvu, og já, ógnin úr austri er að snúa aftur. Og sakleysi síðustu 30 ára frá falli Berlínarmúrsins er á enda,“ sagði Macron m.a. í ávarpi sínu.

Gætu sent herlið til að gæta friðarins

Macron ræddi einnig stöðu í viðræðum um vopnahlé í Úkraínu, en Frakkar og Bretar hafa síðustu daga reynt að setja saman tillögu að vopnahléi með stuðningi Úkraínumanna. 

Sagði Macron í kvöld að evrópskt herlið gæti verið sent til Úkraínu ef vopnahlé eða friðarsamningur yrði undirritaður til þess að tryggja það að Rússar hefji ekki aðra innrás í landið. 

„Þeir munu ekki fara til að berjast í dag, þeir munu ekki fara til að berjast á víglínunni, en þeir munu vera þar eftir undirritun friðarsamnings til að tryggja að hann verði virtur að fullu,“ sagði Macron. 

Kom fram í máli hans að yfirmenn herráða hinna ýmsu herja Evrópu myndu funda í París í næstu viku til þess að ræða hvernig eigi að styðja við Úkraínu eftir að friður kemst á. 

Breiða Frakkar út „kjarnorkuregnhlífina?“

Macron sagðist jafnframt að nú þyrfti að hefja umræðu um það hvort og þá hvernig Frakkar gætu varið bandamenn sína í Evrópu með kjarnorkuvopnum sínum. 

Vísaði Macron þar m.a. í Friedrich Merz, leiðtoga kristilegra demókrata í Þýskalandi, sem líklega verður næsti Þýskalandskanslari, en Merz vakti upp þá hugmynd í vikunni að Frakkar myndu setja önnur ríki Evrópu undir „kjarnorkuregnhlíf“ sína, þar sem ekki væri víst að Bandaríkjastjórn myndi vilja halda áfram að verja bandamenn sína með fælingarmætti sinna eigin kjarnorkuvopna. 

Sagði Macron tilbúinn til þess að ræða þessa hugmynd, en að endanlegt vald um beitingu franskra kjarnorkuvopna yrði alltaf að liggja hjá Frakklandsforseta. 

„Ég vil trúa því að Bandaríkin verði áfram við hlið okkar,“ sagði Macron. „En við þurfum að vera tilbúin ef það er ekki rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert