Sakar Trudeau um græsku

Á meðan allt lék í lyndi. Trump og Trudeau á …
Á meðan allt lék í lyndi. Trump og Trudeau á NATO-ráðstefnu í London í desember 2019. AFP/Nicholas Kamm

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakaði í dag Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada um að nýta sér tollastríð ríkjanna til þess að halda sér áfram við völd. 

Leiðtogarnir ræddu saman símleiðis í dag um tollastríðið, og setti Trump inn færslu á samfélagsmiðil sinn Truth Social eftir símtalið. 

„[Hann] gat ekki sagt mér hvenær kosningarnar í Kanada fara fram, sem vakti forvitni mína. Ég meina, hvað er í gangi? Ég áttaði mig svo á að hann er að reyna nýta sér þessar aðstæður til að halda völdum,“ skrifaði Trump. 

Trudeau sagði af sér sem forsætisráðherra í janúar og mun nýr formaður Frjálslynda flokksins í Kanada verða kosinn á sunnudag. Hinn nýi formaður verður þá í leiðinni forsætisráðherra Kanada og hefur hann vald til að boða til næstu þingkosninga, sem fara fram í síðasta lagi í október. 

Trudeau ómyrkur í máli

Stirt hefur verið á milli ríkjanna tveggja eftir að Trump setti á 25% flata tolla á flestar vörur frá Kanada á þriðjudag. Kanada svaraði í sömu mynt og setti 25% hefndartolla á valda vöruflokka. Hafa Kanadamenn einnig hótað því að setja á mun umfangsmeiri tolla innan þriggja vikna láti Bandaríkin ekki af tollastefnunni.

Trudeau hélt blaðamannafund í gær þar sem hann var ómyrkur í máli á tollastefnu Trumps. Sagði hann tollana heimskulega og sakaði Trump um að reyna viljandi að koma efnahagskerfi Kanada í uppnám til þess að auðvelda það fyrir honum að gera Kanada að 51. ríki Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert