Trump segist vera rétt að byrja

Donald Trump fór mikinn í stefnuræðu sinni.
Donald Trump fór mikinn í stefnuræðu sinni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í stefnuræðu sinni á bandaríska þinginu í nótt að hann hafi móttekið bréf frá Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, þar sem hann sagðist vera reiðubúinn til viðræðna við Rússa um að stöðva stríðið og ganga frá samningi um nýtingu Bandaríkjanna á auðlindum innan Úkraínu.

„Ég fékk mikilvægt bréf frá Selenskí, forseta Úkraínu. Í bréfinu stendur: „Úkraína er tilbúin að koma að samningaborðinu eins fljótt og auðið er til að færa varanlegan frið nær. Enginn vill frið frekar en Úkraínumenn,“ sagði Trump í ávarpi til beggja deilda Bandaríkjaþings.

Hann sagði: „Ég og teymi mitt erum reiðubúin til að vinna undir sterkri forystu Trump forseta til að fá frið sem varir. Við metum virkilega hversu mikið Bandaríkin hafa gert til að hjálpa Úkraínu að viðhalda fullveldi sínu og sjálfstæði,“ bætti Trump við.

Trump í ræðustólnum.
Trump í ræðustólnum. AFP

Í færslu á samfélagsmiðlum í gær sagði Selenskí að hann væri reiðubúinn til að und­ir­rita samn­ing við banda­rísk stjórn­völd sem veit­ir þeim aðgang að jarðefn­um á landsvæði Úkraínu hvenær sem er en eins og frægt lentu Selenskí og Trump í harkalegu orðaskaki á fundi þeirra í Hvíta húsinu um síðustu helgi sem lauk með því að Selenskí var vísað á dyr.

Bandaríkin „snúin aftur“

Trump fór um víðan völl í ræðu sinni og sagði þinginu að hann sé rétt að byrja en sex vikur eru liðnar frá því hann tók við forsetaembættinu á nýjan leik.

Í upphafi ræðu sinnar lýsti Trump því yfir að Bandaríkin væru „snúin aftur“ og endurkoma Bandaríkjanna væri hafin sem ætti sér engan líka í sögunni. Hann líkti sér við George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna, og hrósaði sér af því hversu kosningasigur hans hefði verið stór.

Þó svo að Trump hafi deilt skoðunum sínum um stöðu mála minnti ræða hans frekar á ræðu frá kosningafundi. Hann sagði að margir héldu því fram að enginn forseti hafi farið betur af stað í embætti forseta Bandaríkjanna en hann sjálfur því hann hafi afrekað meira á þessum sex vikum heldur en flestir forsetar gerðu á fjórum til átta árum.

Trump var truflaður nokkrum sinnum í ræðu sinni og þurfti til að mynda að vísa demókratafulltrúanum frá Texas, Al Green, út salnum en það gerðist eftir ítrekaðar viðvaranir frá forseta þingsins, Mike Johnson.

Trump sagði að stjórn hans væri rétt að byrja. „Ameríski draumurinn er óstöðvandi," sagði Trump en ræða hans stóð yfir í eina klukkustund og 40 mínútur og sló þar með met Bill Clintos frá árinu 2000.

Trump hrósaði Elon Musk sem Trump fékk með sér í lið eftir að hann tók við foretaembættinu en Musk stýrir svokallaðri sparnaðarstofnun. Forsetinn sagði að aðgerðir Musk hafi hert á skriffinnskunni, stofnunum hafi verið lokað, ríkisstarfsmönnum fækkað og dregið hafi úr erlendri aðstoð.

Eignumst Grænland með einum eða öðrum hætti

Forsetinn ítrekaði vilja sinn að Bandaríkin „eignist“ Grænland vegna þjóðaröryggishagsmuna. Hann sagðist fagna því ef Grænlendingar myndu velja Bandaríkin fram yfir Danmörku.

„Við styðjum eindregið rétt ykkar til að ákveða eigin framtíð en ef þið veljið Bandaríkin þá bjóðum við ykkur velkomin. Við munum halda ykkur öruggum og gera ykkur rík. Grænland er stórt land og er mjög mikilvægt fyrir hernaðaröryggi. Ég held að við eignumst Grænland með einum eða öðrum hætti. Við náum því og saman munum við lyfti Grænlandi upp í hæðir sem ykkur grunaði aldrei að væru mögulegar.“

Trump segir að bandaríska hagkerfið eigi eftir að upplifa einhverja „röskun“ eftir að hann beitti sér fyrir hækkun tolla á Mexíkó, Kanada og Kína.

„Tollar snúast ekki bara um að vernda bandarísk störf. Þeir snúast um að vernda sá lands okkar,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert