Múté B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, fann sig knúinn til að tjá sig vegna nýjustu yfirlýsingar Donalds Trumps um að Grænland muni með einum eða öðrum hætti komast í bandaríska eigu.
„Við viljum hvorki hafa Bandaríkjamenn né Dani hérna. Við erum grænlensk,“ skrifaði Egede á samfélagsmiðilinn Facebook.
„Bandaríkjamenn og leiðtogar þeirra verða að skilja þetta,“ heldur hann áfram.
„Við erum ekki til sölu og verðum ekki bara tekin. Framtíðin verður ákveðin af okkur á Grænlandi,“ segir Egade.
Í fyrri yfirlýsingum hefur Donald Trump neitað að útiloka beitingu hervalds til að ná fram markmiði sínu um að eignast Grænland. Tónninn var þó mildari framan af ræðu hans á Bandaríkjaþingi í fyrradag.
„Við styðjum heilshugar rétt ykkar til þess að ákvarða eigin framtíð, og ef þið veljið, þá er ykkur velkomið að verða hluti af Bandaríkjunum," sagði Trump í ræðu sinni þar sem hann beindi orðum sínum til Grænlendinga.
En sagði í beinu framhaldi að hann hygðist ekki gefast upp. „Á einn eða annan hátt munum við ná því (Grænlandi).“
Lofaði hann Grænlendingum gull og grænum skógum í framhaldinu og sagði þá munu efnast vel ef þeir yrðu hluti af Bandaríkjunum.
Trouls Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, gagnrýndi orð Trumps harðlega í gær. „Það mun ekki gerast,“ var svar hans við spurningu fréttamanns DR1 um ummæli Trumps.