Petró Porósjenkó og Júlía Tímósjenkó, leiðtogar úkraínsku stjórnarandstöðunnar, segja það ekki koma til greina að halda kosningar fyrr en þegar friður hefur tekið við af innrásarstríði Rússa.
Hermt er að stjórnvöld í Washington hafi reynt að fá þau til að þrýsta á um kosningar.
Í stjórnarskrá Úkraínu er kveðið á um bann við kosningum á meðan herlög eru í gildi í landinu, en þau hafa verið við lýði allt frá því rússneski herinn réðst inn í landið í febrúar fyrir þremur árum.
Ef Rússar hefðu ekki ráðist inn í landið, samkvæmt skipun einræðisherrans Vladimírs Pútín, þá hefðu forsetakosningar verið á dagskrá í fyrra.
Stjórnvöld í Kreml hafa aftur á móti, auk stjórnvalda í Washington eftir embættistöku Donalds Trump forseta, haldið því fram að Volodimír Selenskí sé ekki réttmætur leiðtogi Úkraínu og kallað eftir kosningum til að losa hann úr stóli forseta.
Bandaríski miðillinn Politico greindi svo frá því í nótt að háttsettir bandamenn Trumps hefðu stofnað til leynilega viðræðna við Tímósjenkó og háttsetta samflokksmenn Porosjenkós, um hvort hægt væri að halda skjótar forsetakosningar.
Porosjenkó var kjörinn forseti árið 2014 en laut í lægra haldi fyrir Selenskí árið 2019.
Í yfirlýsingu í dag segir Porosjenkó að hann og hans lið hafi alltaf verið og sé enn algjörlega á móti því að halda kosningar á meðan stríðið stendur yfir.
„Við höfum sagt, og höldum áfram að segja, að kosningar geta aðeins átt sér stað eftir að vopnahléi er náð og skrifað hefur verið undir friðarsamning með tryggingar um öryggi fyrir Úkraínu,“ segir hann.
Gagnrýnir hann þó ríkisstjórn Selenskís og segir samskipti hafa skort á milli Kænugarðs og Washington, sem stofni ríkinu í hættu.
Tímósjenkó, sem var forsætisráðherra Úkraínu í tvö kjörtímabil og leiðir Föðurlandsflokkinn, segir að lið hennar sé að „semja við alla þá bandamenn sem geta hjálpað til við að tryggja réttlátan frið eins fljótt og hægt er“.
„Þangað til, og ég hef sagt þetta oftar en einu sinni, þá er út úr myndinni að halda nokkrar kosningar í Úkraínu.“