Bandaríkjamenn hafa gert hlé á deilingu leyniþjónustugagna með Úkraínu. Þetta staðfesti Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi þar vestra, við fjölmiðla í gær og sagði á blaðamannafundi að bandarísk leyniþjónustuyfirvöld hefðu „tekið eitt skref til baka“ á þessum vettvangi.
Bætti ráðgjafinn því við að stjórn Donalds Trumps forseta hefði nú gert hlé á og tekið til endurskoðunar „alla þætti þessa sambands“.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur boðað fund með evrópskum hernaðarstjórnendum í París í næstu og lýsti því um leið yfir að Frakkland yrði að vera því reiðubúið að halda förinni áfram án fulltingis Bandaríkjanna. „Ég vil trúa því að Bandaríkin muni standa okkur við hlið, en við verðum að búa okkur undir að svo verði ekki,“ sagði forseti.
Sagði Macron Evrópu nú halda inn í nýtt tímabil og hvatti þjóðir álfunnar til að setja meira púður í varnarmál.
Bandaríkin drógu enn fremur úr hernaðaraðstoð við Kænugarð á mánudaginn í kjölfar orðasennu Trumps og Volódimírs Selenskís Úkraínuforseta í Hvíta húsinu á föstudaginn. Ekki er ljóst hvort hléið á deilingu gagna er eingöngu að hluta til eða algjört eða hve lengi það muni standa.
John Ratcliffe, forstöðumaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, virtist staðfesta þessa ákvörðun yfirvalda í viðtali við Fox Business-dagskrárlið sjónvarpsstöðvarinnar Fox News í gær þegar hann sagði að Trump velti því fyrir sér í fullri alvöru hvort raunverulegur ásetningur Selenskís væri að ná fram friði. „Stöldrum við, mig langar til þess að gefa ykkur tíma til að melta það,“ sagði Ratcliffe við þáttastjórnendur Fox.
Waltz kvað ekkert því til fyrirstöðu að hernaðaraðstoð og deiling gagna ykist á ný er fram liðu stundir.
„Ég held að takist okkur að festa þessar samningaviðræður í sessi og nálgast þær meira, leggja eitthvað á borðið sem gefur tilefni til raunverulegs sjálfstrausts, muni forsetinn [Trump] sterklega íhuga að halda áfram,“ sagði Waltz, að þessu sinni í samtali við Fox.