Tóku allt vínið úr hillunum

Starfsmenn LCBO-vínbúðanna í Ontario hafa fjarlægt allt bandarískt vín úr …
Starfsmenn LCBO-vínbúðanna í Ontario hafa fjarlægt allt bandarískt vín úr hillum vínbúða sinna og lokað fyrir sölu þeirra á netinu. Ljósmynd/LCBO Media Centre

Áfengisverslun Ontario-fylkis, LCBO, hefur tekið allt bandarískt áfengi úr hillum sínum vegna tollastríðs Trumps Bandaríkjaforseta á hendur Kanada. 

Stjórnvöld í Kanada hafa brugðist hart við eftir að Bandaríkjastjórn ákvað að setja 25% toll á vörur frá landinu, og hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra landsins, sagt að hefndartollar Kanadamanna verði ekki teknir af fyrr en Bandaríkin hætti alveg við sína tolla. 

Yfirvöld í Ontario, stærsta fylki Kanada, hafa einnig tekið illa í bandarísku tollana, og hét Doug Ford, forsætisráðherra fylkisstjórnarinnar, því að loka á alla rafmagnssölu frá fylkinu til Bandaríkjanna, en nokkur ríki Bandaríkjanna hafa keypt orku frá Ontario. 

Aðgerðir LCBO eru hluti af viðbragði Ontario-fylkis og lá heimasíða vínbúðarinnar niðri í fyrradag á meðan verið var að taka allt bandarískt áfengi úr sölu. Er nú efst á síðunni sérstök síða þar sem viðskiptavinum er boðið að kynna sér kanadíska framleiðslu í stað bandaríska áfengisins. Þá blasa við sérstök skilti í vínbúðum LCBO með skilaboðum til neytenda um ástæður bannsins.

Við viðskiptavinum LCBO blasa nú við skilti, þar sem ákvörðunin …
Við viðskiptavinum LCBO blasa nú við skilti, þar sem ákvörðunin er sögð tekin til að verja hagsmuni Ontario-fylkis og Kanada. Ljósmynd/LCBO Media Centre

LCBO var stofnuð árið 1927 eftir að losað var um áfengisbann í Kanada, og hefur búðin notið  einokunarstöðu á mestallri áfengissölu í Ontario-fylki, en smásalar geta fengið undanþágur til þess að selja bjór og léttvín. Þá sér LCBO um alla heildsölu áfengis í fylkinu og geta smásalar í fylkinu því ekki keypt nýjar birgðir af bandarísku áfengi fyrr en banninu verður aflétt. 

LCBO er því einn stærsti kaupandi áfengis í heimi og hefur verið áætlað að það kaupi bandarískt áfengi fyrir um 965 milljónir kanadadala á hverju ári, eða sem nemur um 91,8 milljörðum íslenskra króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert