Ættleidd með fölsuð fæðingarvottorð

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar voru 7.220 börn …
Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar voru 7.220 börn ættleidd frá Suður-Kóreu til Danmerkur. Nú er talin ástæða til að ætla að maðkur hafi verið í mysunni við sumar ættleiðinganna. Ljósmynd/Úr safni DR

Tíu manns hafa krafið danska ríkið um milljónir í skaðabætur fyrir ólöglegar ættleiðingar frá Chile og Suður-Kóreu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar í skjóli falsaðra fæðingarvottorða.

Fólkið var allt ættleitt til danskra foreldra og leikur nú grunur á að líffræðilegir foreldrar þess hafi aldrei samþykkt að láta börn sín frá sér með þessum hætti. Í ofanálag þykist fólkið ættleidda þess fullvisst að danska ríkinu hafi verið fullkunnugt um að það tæki á móti börnum sem sætt hefðu mannréttindabrotum með því að vera tekin frá foreldrum sínum samþykkislaust.

Tveir kröfuhafa eru frá Chile, átta frá Suður-Kóreu og krefja tíumenningarnir ríkissjóð nú um samtals tvær og hálfa milljón króna, jafnvirði 49,2 milljóna íslenskra króna, fyrir brot danska ríkisins á sínum tíma. Er kröfunni beint til félags- og húsnæðismálaráðuneytis landsins.

Eitthvað bogið við gang mála í Chile

„Fæðingarvottorð þeirra voru fölsuð og hér í Danmörku lá snemma í ferlinu vitneskja fyrir um að eitthvað væri bogið við gang mála í Chile, einkum á barnaheimili þar sem þessar tvær manneskjur dvöldu,“ segir Lisa Dalgas Christensen, lögmaður hinna tveggja ættleiddu sem komu frá Chile, í samtali við danska ríkisútvarpið DR.

Kveður hún skjólstæðinga sína þeirrar skoðunar að á þeim hafi mannréttindi verið brotin, nánar tiltekið 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um réttinn til einkalífs og fjölskyldulífs.

Í skýrslu úrskurðarnefndar um félagslega þjónustu, Ankestyrelsen eins og hún kallast á dönsku, frá 2021 kemur fram að í kjölfar rannsóknar nefndarinnar sé ekki hægt að vísa því á bug að ættleiðingar gegnum fyrirtækið AC Børnehjælp árabilið 1978 til 1988 hafi verið í trássi við lög. Ber skýrslan titilinn „Mistanke om ulovlige forhold i adoptioner fra Chile til Danmark 1978-1988“ eða „Grunur um lögbrot við ættleiðingar frá Chile til Danmerkur 1978-1988“.

Var kunnugt um falsanir

Það var í nóvember sem áttamenningarnir frá Suður-Kóreu settu bótakröfu sína fram og greinir DR frá því að þeim hópi sé rithöfundurinn Eva Tind sem kom eins árs gömul til Danmerkur og voru fylgigögn hennar fölsuð.

Telja kröfuhafar danska ríkið hafa brugðist þeirri skyldu sinni að gæta réttinda barnanna ættleiddu. Meðal þess sem fram kemur í framangreindri skýrslu úrskurðarnefndarinnar er að ættleiðingarfyrirtækjum í Danmörku hafi verið fullkunnugt um að samstarfsaðilar þeirra í Suður-Kóreu breyttu persónuupplýsingum um börnin áður en þau voru send til Danmerkur. Skýrslan varð kveikjan að málshöfðun hópsins.

Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að líkur teldust á því að börn, sem ættleidd voru frá Chile til Danmerkur, hefðu verið tekin af foreldrum sínum með ólögmætum hætti og fæðingarvottorðum þeirra breytt. Ekki væri unnt að slá því föstu, svo óyggjandi teldist, að foreldrarnir hafi samþykkt að ættleiða börnin frá sér.

Danska félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til kröfu hinna ættleiddu, en segir í skriflegu svari um málið til DR:

„Félags- og húsnæðismálaráðuneytið getur staðfest að 5. mars barst því krafa tveggja persóna sem voru ættleiddar frá Chile til Danmerkur. Ráðuneytið fer nú yfir málið.“

DR
DR-II (nýrri skýrsla nefndarinnar, frá 2025)
Berlingske (ráðherra stöðvar ættleiðingar frá Suður-Afríku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert