Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar Rússum refsiaðgerðum og tollum eftir umfangsmiklar árásir á Úkraínu í nótt.
Forsetinn hefur nýlega gert hlé á hernaðaraðstoð við Úkraínu og eru bandarísk stjórnvöld sömuleiðis hætt að deila njósnaupplýsingum með Úkraínumönnum.
„Í ljósi þess að Rússar eru algjörlega að hamast á Úkraínu á vígvellinum núna er ég sterklega að íhuga umfangsmiklar viðskiptahömlur, refsiaðgerðir og tolla gegn Rússlandi þar til vopnahlé og lokasamningur um frið liggur fyrir,“ skrifaði Trump í færslu á samskiptamiðil sinn Truth social.
Þá skipaði hann Rússum og Úkraínumönnum að setjast við samningaborðið núna. „Áður en það verður of seint.“