Þrír búlgarskir flugumenn hafa verið dæmdir fyrir njósnir í Bretlandi. Eru þeir sagðir hafa stundað njósnir fyrir Rússa. Fyrir dómi voru tekin dæmi um einstaklinga sem var fylgt eftir af búlgarska selluhópnum. Voru það m.a. blaðamenn, fyrrum stjórnmálamenn og úkraínskir hermenn sem fengu þjálfun á herstöð í Þýskalandi árið 2022.
Bresk stjórnvöld segja njósnaaðgerðirnar þær stærstu sem yfirvöld hafa komist á snoðir um innan landamæra landsins frá tímum kalda stríðsins.
Þremenningarnir heita Vanya Gaberova, Katrin Ivavona og Tihomir Ivanchev og eru öll á fertugsaldri og íbúar í London. Áður höfðu þrír aðrir Búlgarar verið dæmdir fyrir njósnir. Þeirra á meðal var höfuðpaur hópsins sem talinn er hafa fengið fyrirmæli frá austurrískum manni með tengsl við stjórnvöld í Kreml.
Þremenningarnir sinntu allir í dagvinnu í Englandi og störfuðu sem snyrtifræðingur, í heilbrigðiskerfinu og sem stílisti. Er sellan sem þau tilheyrðu m.a. sögð hafa haft það verkefni að ræna og drepa þá sem þau fylgdu eftir auk þess að leggja fyrir þá frygðargildrur, (honeytraps).
Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að aðferðir hópsins minni helst á það sem lesa má um í njósnabókum.
Áður hafði leiðtogi sellunnar, hinn 47 ára Búlgari Orlin Roussev, verið dæmdur fyrir njósnir ásamt tveimur öðrum. Er hann sagður hafa stjórnað njósnaaðgerðum frá gistiheimili í Norfolk.
Á gistiheimilinu fann lögregla m.a. njósnabúnað sem hafði verið komið fyrir í Minions-leikföngum. Saksóknari í málinu sagði fyrir dómi að aðgerðir sellunnar hafi verið afar vel skipulagðar og að tækjabúnaður hópsins hafi verið með besta móti.
Þannig lagði lögregla hald á 221 farsíma, 495 sim-kort, 11 dróna og búnað sem sérhæfður er til að draga upplýsingar úr farsímum og að fylgjast með því sem gert er á wifi-neti.
Rousev er sagður hafa fengið sínar skipanir frá austurrískum útsendara sem búsettur er í Þýskalandi að nafni Jan Marsalek. Er hann eftirlýstur í Þýskalandi fyrir fjársvik.