Donald Tusk forsætisráðherra Póllands segir hugmynd Emmanuel Macron Frakklandsforseta til að setja önnur ríki Evrópu undir „kjarnorkuregnhlíf“ Frakklands lofa mjög góðu.
„Við verðum að taka þessu tillögu alvarlega,“ sagði Tusk við blaðamenn í Brussel á fimmtudaginn.
Ítrekaði hann í kjölfarið að ríki Evrópu yrðu að styrkja varnir sínar gegn Rússum, og að það yrði að setja það í forgang. Sagði Tusk að samþætta þyrfti hernaðarmátt Evrópuríkjanna, því það gæti gefið Evrópu skýrt forskot á Rússland.
„Evrópa verður að taka við þessari áskorun, þessu vopnakapphlaupi, og hún verður að vinna það,“ sagði Tusk.
Macron sagði í ávarpi sínu á miðvikudagskvöld að hefja þyrfti umræður um hvort og hvernig Frakkar geti varið bandamenn sína í Evrópu með kjarnorkuvopnum sínum.
Friedrich Merz, leiðtogi kristilegra demókrata í Þýskalandi – sem verður líklega næsti Þýskalandskanslari – hafði nýlega vakið upp hugmynd um að Frakkar myndu setja önnur ríki Evrópu undir „kjarnorkuregnhlíf“, þar sem ekki væri víst að ríkisstjórn Bandaríkjanna vilji halda áfram að verja bandamenn sína með fælingarmætti eigin kjarnorkuvopna.
Macron sagðist tilbúinn til þess að ræða þessa hugmynd, en endanlegt vald um beitingu franskra kjarnorkuvopna yrði þó alltaf að liggja hjá Frakklandsforseta.
„Ég vil trúa því að Bandaríkin verði áfram við hlið okkar,“ sagði Macron. „En við þurfum að vera tilbúin ef það er ekki rétt.“
Leiðtogar í Skandinavíu, sem allra jafna eru ekki hlynntir kjarnorku, tóku vel í tillögu Macrons og sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, að við núverandi aðstæður yrði að halda öllum möguleikum opnum.
„Það er ekki eitthvað sem við vinnum að en þú munt ekki heyra mig neita hugmyndum annarra,“ sagði hún.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, tók einnig vel í umræðuna.
„Eins og flestir, vilja Svíar eiga eins fá kjarnorkuvopn og mögulegt er en á þessu augnabliki ættum við að vera ánægð og þakklát fyrir að tveir nágrannar okkar (Frakkland og Bretland) eigi kjarnorkuvopn,“ sagði hann.