Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu í gær á fundi sínum í Brussel áætlun framkvæmdastjórnar sambandsins í fimm liðum um að auka framlög ESB til varnarmála um 800 milljarða evra á næstu fjórum árum, svo að aðildarríkin geti vígvæðst á nýjan leik.
„Evrópa horfir framan í skýra og viðvarandi ógn, og því þarf Evrópa að geta varið sig,“ sagði Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnarinnar í gær við blaðamenn. „Það eru einnig vatnaskil í Úkraínu og við verðum að tryggja að Úkraína geti varið sig og vinna að varanlegum og réttlátum friði.“
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sótti leiðtogafundinn og þakkaði þar í upphafi fundar leiðtogum Evrópusambandsins fyrir að standa með Úkraínu, en fundurinn var haldinn í skugga deilna á milli Úkraínu og Bandaríkjastjórnar um framhaldið.
Til umræðu á fundinum var staða öryggismála í Evrópu vegna breyttrar afstöðu bandarískra stjórnvalda til Úkraínu. Bandaríkjastjórn hætti í vikunni hernaðarstuðningi við Úkraínu og láta Bandaríkjamenn ekki lengur Úkraínuher hernaðarlegar upplýsingar í té. Frakkar sögðust í gær myndu veita Úkraínuher slíkar upplýsingar.