Á þriðja tug látnir er árásum fjölgar í Úkraínu

Á þessari ljósmynd sem viðbragðsaðilar í Úkraínu gáfu frá sér …
Á þessari ljósmynd sem viðbragðsaðilar í Úkraínu gáfu frá sér má sjá íbúðarhúsnæði í ljósum logum. AFP

Að minnsta kosti 25 manns hafa látið lífið í nýrri árásahrinu Rússa í Úkraínu, að sögn Úkraínumanna, en árásum hefur fjölgað síðustu vikuna.

Stærsta árásin var á Donétsk-svæðinu en hún varð 11 manns að bana auk þess sem um 40 særðust, þar á meðal sex börn. Þar skutu Rússar tveimur flugskeytum sem hæfðu átta íbúðabyggingar og verslunarkjarna.

Eftir að viðbragðsaðilar mættu skutu Rússar annarri eldflaug og „miðuðu viljandi á björgunarfólkið“ að sögn Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta. „Slíkar árásir sýna að markmið Rússa eru óbreytt,“ bætti hann við.

Rússar hæfðu auk þess heimili og innviði í árásum í Karkív og Odesa en alls féllu níu manns í árásum á öðrum svæðum í gær og í dag. Á sama tíma heldur Úkraína áfram með gagnárásir sínar en varnarmálaráðuneyti Rússa segist hafa skotið niður 31 dróna í nótt.

Að eiga við „barbara“

Árásum Rússa hefur fjölgað á síðustu dögum eftir að Bandaríkin frystu hernaðaraðstoð til Úkraínu og hættu að deila leyniþjónustugögnum með landinu.

Gerðist það í framhaldi af hitafundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, J.D. Vance varaforseta og Selenskí í síðustu viku. 

Donald Tusk, forseti Póllands, hefur brugðist við árásunum á X. „Þetta er það sem gerist þegar einhver lætur undan kröfum barbara,“ skrifar Pólverinn.

„Fleiri sprengjur, fleiri árásir, fleiri fórnarlömb.“

Að minnsta kosti 11 manns létust í einni árás í …
Að minnsta kosti 11 manns létust í einni árás í Dobropillia í Donétsk. AFP

Trump: Kannski auðveldara að eiga við Rússland

Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi í gær að það „gæti verið auðveldara að eiga við Rússland“ um að binda enda á stríðið í Úkraínu. Trump sagðist enn fremur trúa því að Pútín vildi semja um frið.

Þetta sagði forsetinn aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa sagst „sterklega íhuga“ að beita Rúss­a refsiaðgerðum og toll­um, eft­ir að þeir höfðu gert umfangsmikl­ar árás­ir á Úkraínu um nóttina. 

Eftir að stefnubreyting Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu varð ljós hófst samkvæmisleikur í Evrópu, þar sem hver þjóð á fætur annarri vígbýr sig. Danir hafa aukið framlög til varnarmála og Pólverjar hyggist láta alla fullorðna karlmenn fara í herþjálfun.

Tusk segir að Pólland eigi að kanna kjarn­orku „mögu­leika“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert