„Þetta var ein grimmilegasta árásin,“ segir Volodimír Selenskí Úkraínuforseti um flugskeytaárás Rússa sem varð ellefu manns að bana í Donétsk í dag. Fimmtíu manns eru særðir, þar á meðal tíu ára stelpa.
Árásin varð í borginni Dobropillia en þangað skutu Rússar tveimur flugskeytum sem hæfðu níu íbúðabyggingar og verslunarkjarna. Sprengjum rigndi svo aftur yfir svæðið eftir að viðbragðsaðilar höfðu mætt og voru að störfum á svæðinu.
Úkraínuforsetinn segir á samfélagsmiðlinum X í kvöld að árás Rússa hafi verið þaulskipulögð til að valda sem mestum skaða. Í yfirlýsingunni þakkar hann leiðtogum vinaþjóða fyrir að fordæma árásir síðustu daga. Segir hann ljóst að Rússar leitist ekki eftir að binda enda á stríðið – árásin sé þess til marks.
Today, all day long, work continued in the city of Dobropillya, the Donetsk region, following a Russian strike. It was one of the most brutal attacks, a combined strike carefully planned to cause maximum damage. Missiles, along with Shahed drones, targeted the central part of the… pic.twitter.com/bipdh5iS9I
— Volodymyr Zelenskyy / Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) March 8, 2025
Rússar hæfðu auk þess heimili og innviði í árásum í Karkív og Odessa en alls féllu níu manns í árásum á öðrum svæðum í gær og í dag.
Árásum Rússa hefur fjölgað á síðustu dögum eftir að Bandaríkin frystu hernaðaraðstoð til Úkraínu og hættu að deila leyniþjónustugögnum með landinu. Alls hafa að minnsta kosti 25 manns látið lífið í árásum Rússa síðan þá.
Á sama tíma heldur Úkraína áfram með gagnárásir sínar en varnarmálaráðuneyti Rússa segist hafa skotið niður 31 dróna í nótt.