Norðmaðurinn Steinar Wangen verður innan skamms framseldur til Noregs frá Svíþjóð og tekur norsk lögregla þar með við rekstri sakamáls sem vakið hefur nokkurn óhug í báðum löndunum – ekki síst í ljósi þess að Wangen hlaut í júlí í fyrra átta ára dóm fyrir það sama í Héraðsdómi Østfold í Noregi.
Wangen, sem sumir norskir fjölmiðlar hafa nefnt „Engil dauðans, viðurnefni sem læknirinn Josef Mengele bar í útrýmingarbúðum nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, berst fyrir því að aðstoð við sjálfsvíg verði gerð lögleg í Noregi, „legalisering av aktiv dødshjelp“ kallast á norsku sú aðstoð við náungann sem Wangen er tilbúinn að leggja frelsi sitt í sölurnar fyrir.
Skýringin á því að hann situr ekki þegar í fangelsi eftir dóminn í fyrra er að þeir Gaute Nilsen verjandi hans áfrýjuðu til lögmannsréttar og krafðist ákæruvaldið ekki gæsluvarðhalds fram að dómi lögmannsréttar.
Fer Wangen hins vegar rakleiðis í gæsluvarðhald í Noregi nú við heimkomu. Dómurinn í fyrra var fyrir að aðstoða konu við að binda endi á líf sitt, en þau brot sem sænsk lögregla hefur hann grunaðan um eru öllu umfangsmeiri – eitt manndráp og fjögur tilfelli af aðstoð við sjálfsvíg í Trollhättan.
En refsingar Wangens eru þar með ekki fulltaldar. Árið 1986 hlaut hann dóm fyrir að myrða sjö ára gamla stúlku og hefur hann rætt um baráttu sína fyrir lögmætri sjálfsvígsaðstoð í sjónvarpsþætti TV2, Norge bak fasaden, eða Noregur að tjaldabaki.
Vill Nilsen verjandi ekki greina norska dagblaðinu VG frá því hvaða afstöðu skjólstæðingur hans taki til sektar sinnar eða sakleysis í tengslum við atvikin í Svíþjóð, en í héraðsdómi í fyrra játaði hann atburðarásina við sjálfsvíg konunnar, en neitaði sök í málinu.
Verjandi hans í Svíþjóð, Peter Norlin, hefur hins vegar sagt TV2 að Wangen neiti sök í öllum málunum Svíþjóðarmegin.
„Skjólstæðingur minn hlakkar til að koma til Noregs,“ segir Nilsen.
Wangen var handtekinn í Strömstad í Svíþjóð í nóvember, í kjölfar útsendingar Norge bak fasaden-þáttarins, en þá hafði hann hitt þáttagerðarmenn sem komu fram undir fölsku flaggi og kváðust vera kona sem óskaði aðstoðar við að enda líf sitt.
Ef einstaklingar upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.